Pétur Pétursson þulur (1918-2007)

Pétur Pétursson þulur1

Pétur Pétursson þulur

Pétur Pétursson þulur eins og hann var iðulega nefndur átti stóran þátt í að móta íslenskt útvarp og útvarpshefðir, sem enn í dag eru sumar hverjar í fullu gildi hjá Ríkisútvarpinu. Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á tónlistarsmekk og -uppeldi heillar þjóðar og Pétur enda blandaði hann daglega lagakokteil fyrir útvarpshlustendur í áratugi áður en útvarpsrekstur var gefinn frjáls hérlendis.

Pétur fæddist 1918 á Eyrarbakka en fluttist með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur um fimm ára aldur. Þar átti hann eftir að búa og starfa alla tíð.

Pétur fékkst við störf af ýmsu tagi en var 1941 ráðinn til Ríkisútvarpsins sem þulur. Fimm árum áður hafði hann þó lesið í fyrsta skiptið í útvarpinu. Pétur hlaut fastráðningu 1943 og starfaði hjá útvarpinu til 1950 og síðan aftur frá 1970 og þar til hann fór á eftirlaun, hann ritaði einnig greinar í blöð og bækur – mest af sagnfræði- og menningarlegum toga. Auk þularstarfsins hjá Ríkisútvarpinu annaðist hann tónlistarþætti, m.a. þáttinn Sitt af hverju tagi sem var kunnugum hefur verið kallaður fyrsti blandaði útvarpsþátturinn á Íslandi.

Á árunum milli 1950 og 70 fékkst Pétur m.a. við verslunarrekstur en annaðist einnig umboðsmennsku fyrir listamenn, einkum tónlistarmenn og hljómsveitir á sjöunda áratugnum, þeirra á meðal má nefna Savanna tríóið. Þessu starfi gegndi Pétur allt þar til Ríkissjónvarpið tók til starfa en þá fækkaði nokkuð verkefnum í þeim geiranum.

Pétur Pétursson þulur

Pétur í þularstofu

Hann stóð ennfremur fyrir fyrstu danslagakeppninni sem haldin var hérlendis, það var á Hótel Íslandi og má þess geta að sigurlagið var Dagný eftir Sigfús Halldórsson. Pétur hafði einmitt gefið út nótur með lögum Sigfúsar 1939 og kom tónskáldinu þannig á framfæri.

Pétur flutti einnig inn tónlistarfólk frá öðrum löndum, mestmegnis frá Sovétríkjunum en Pétur var harður talsmaður sósíalískra hugsana þótt hann væri aldrei flokksbundinn sjálfur. Meðal verkefna sem hann hélt utan um voru tónleikar með Vladimir Azhkenazy.

Pétur Pétursson þulur lést vorið 2007 tæplega níræður að aldri. Af honum er komið mikið af þekktu tónlistarfólki, barnabarn hans (sonur Ragnheiður Ástu Pétursdóttur útvarpsþular) er Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari og dætur hans (og Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu) eru Sigríður, Elín og Elísabet Eyþórsdætur hafa allar fengist við tónlist.