Possibillies (1985-90)

Possibillies

Possibillies

Possibillies var dúett þeirra fóstbræðra Jóns Ólafssonar og Stefáns Hjörleifssonar en þeir hafa leikið saman í ógrynni hljómsveita frá unglingsárum, og eru reyndar enn í samstarfi í hljómsveitinni Nýdanskri.

Þótt upphaf Possibillies miðist við árið 1985 þegar fyrri plata þeirra kom út höfðu þeir Jón og Stefán starfað saman tveir og skapað tónlist allt frá 1982 en dúóið hlaut þó ekki nafn fyrr en um það leyti sem það kom fram á sjónarsviðið fullskapað með stóra plötu.

Jón var þá þegar orðinn þekktur útvarpsmaður á Rás 2 sem þá var á upphafsárum sínum en Stefán hafði vakið athygli fyrir plötuna Morgundagurinn en sú plata hafði að geyma tónlist úr kvikmynd sem nokkrir félagar hans út Hafnarfirði höfðu gert.

Tónlistin á plötu Possibillies sem bar heitið Mát var að mestu eftir þá sjálfa og gáfu þeir ennfremur sjálfir út plötuna enda ekki að því hlaupið fyrir óþekkta tónlistarmenn að fá útgefnar plötur hjá stóru útgáfufyrirtækjunum, án þess að missa listrænt frelsi sitt. Ásgrímur Sverrisson síðar kvikmyndagerðarmaður hannaði plötuumslagið sem þótti nokkuð nýstárlegt.

Mát hlaut prýðilegar viðtökur tónlistarskríbenta fjölmiðlanna, hlaut t.d. ágætis dóma í Helgarpóstinum, Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og DV en sæmilega í unglingatímaritinu Smelli, lagið Móðurást varð laga vinsælast á plötunni auk Nú syng ég rokk. Fyrrnefnda lagið var reyndar í tveimur útgáfum á Mát, annars vegar „venjulegri“ útgáfu en hins vegar eins konar endurhljóðblandaðri og lengri útgáfu en slíkt var þá nýlunda hérlendis.

Um haustið 1985 sendu þeir félagar frá sér lagið Tíbrá í fókus sem kom út á safnplötunni Perlur en í laginu nutu þeir fulltingis Ingu Eydal söngkonu.

Possibillies lék nokkrum sinnum opinberlega á þessum tíma og naut þá aðstoðar meðlima Bítlavinafélagsins sem þeir Jón og Stefán léku þá með.

Possibillies

Possibillies 1990

Þótt dúettinn stefndi á aðra plötu í kjölfar Máts liðu fimm ár áður en hann lét á sér kræla á nýjan leik, reyndar hafði eitt lag komið út með Possibillies á safnplötunni Bandalög sumarið 1989 en um vorið 1990 bárust þær fregnir að ný plata væri væntanleg og að dúettinn nyti aðstoðar ljóðskáldsins og þáverandi fréttamanns, Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Sumir fjölmiðlar gengu reyndar svo langt að kalla Possibillies tríó en það varð víst aldrei raunin.

Sigmundur Ernir samdi þó alla texta plötunnar sem kom út fyrir jólin 1990, var tvöföld og fékk titilinn Töframaðurinn frá Ríga sem var skírskotun í lettneska skákmeistarann Mikhail Tal. Plötuna gáfu þeir sjálfir út eins og hina fyrri, undir merkjum Possiplatna.

Sem fyrr segir var platan tvöföld en síðari hlið síðari (vínyl)plötunnar var auð, og hlaut titilinn Töframaðurinn hugsar. Platan hlaut ágæta dóma í DV og þokkalega í Morgunblaðinu.

Lagið Tunglið mitt sló samstundis í gegn, sungið af Stefáni Hilmarssyni og heyrist enn í útvarpi, og einnig í útgáfu Hildar Völu Einarsdóttur frá 2006.

Fleiri valinkunnir söngvarar komu við sögu á plötunni, þar má nefna Daníel Ágúst Haraldsson og Björn Jörund Friðbjörnsson úr Nýdanskri en þeir Jón og Stefán voru um það leyti að ganga til liðs við þá sveit.

Hvort sem það var ástæðan eða einhver önnur, þá hefur ekkert spurst til Possibillies síðan Töframaðurinn frá Ríga kom út 1990.

Efni á plötum