Afmælisbörn 26. september 2016

hjorleifur-valsson

Hjörleifur Valsson

Tvö afmælisbörn koma við sögu á þessum degi:

Reynir Jónasson harmonikkuleikari og organisti er áttatíu og fjögurra ára gamall í dag. Reynir kemur upphaflega úr Suður-Þingeyjasýslu en tónlistarferillinn hófst þó á Akureyri um tvítugt. Þegar hann flutti suður lék hmeð sveitum eins og Hljómsveit Svavars Gests, Rómeó kvartettnum og Tríói Trausta Thorberg en síðar hlaut hann tónlistarskólastjóra- og organistastöðu á Húsavík þar sem hann bjó um tíma. Eftir að hann flutti aftur suður starfaði hann sem organisti, kórstjórnandi og tónlistarkennari víða um höfuðborgarsvæðið auk þess að leika með ýmsum hljómsveitum. Eftir Reyni liggja nokkrar sólóplötur.

Eiður Arnarsson bassaleikari frá Vestmannaeyjum er fimmtugur og því stórafmælisbarn dagsins. Eiður er auðvitað þekktastur sem bassaleikari Stjórnarinnar og Todmobile en hann hefur líka leikið með sveitum eins og Radíus, 7und, Þúsund andlitum, Afsakið, Tweety, Belfigor, Sniglabandinu og Kartöflumúsunum. Eiður hefur margsinnis staðið á sviðum söngvakeppna og leikið inn á plötur misþekktra tónlistarmanna. Hann gegndi stöðu útgáfustjóra hjá Senu um árabil og starfar í dag sem framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda.

Þá er Hjörleifur Valsson fiðluleikari fjörutíu og sex ára gamall í dag. Hjörleifur hefur leikið á ófáum plötum listamanna, bæði í poppinu og þyngri tónlist. Þar má nefna plötur Regínu Óskar, Moniku Abendroth, Sniglabandsins, Ljótu hálfvitanna og Sprengjuhallarinnar en hann hefur einnig leikið sjálfur í hljómsveitum eins Balzamersveitinni Bardukha, Duo Landon og Litla lakkrísbandinu.