Ísafjörður über alles [útgáfufyrirtæki] (1983-84)

isfizkar-nybylgjugrubbur-ymsir

Ísfizkar nýbylgjugrúbbur

Á Ísafirði starfrækti Sigurjón Kjartansson (síðar Ham, Olympia o.m.fl.) útgáfufyrirtækið Ísafjörður über alles á fyrri hluta níunda áratug síðustu aldar. Hann var þá einungis um fimmtán ára aldur.

Ísafjörður über alles var hvorki langlíf né afkastamikil útgáfa en náði þó að koma frá sér tveimur snældum, annars vegar safnsnældunni Ísfizkar nýbylgjugrúbbur (dauðar og lifandi) sem kom út 1983, hins vegar snældunni Auðvirðilegur koss frá bjánanum rósrauða með hljómsveitinni Ónýta galleríinu en síðari snældan var gefin út í samvinnu við Gilitrutt sf. Sjálfur var Sigurjón viðloðandi margar þeirra sveita sem komu við sögu á snældunum.

Snældurnar tvær sýna að pönkstraumar og stefnur áttu greiða leið vestur á firði þótt það væri e.t.v. nokkru síðar en sunnan heiða, og eru prýðilegir minnisvarðar um þá grósku sem átti sér stað í tónlistarlífi ungs fólks á Ísafirði á þessum tíma.