Texas Jesús (1993-96 / 2008-)

Texas Jesús og Heiða

Hljómsveitin Texas Jesús vakti nokkra athygli á síðasta áratug 20. aldarinnar fyrir frumlegheit og skemmtilega sviðsframkomu.

Sveitin sem starfaði í Keflavík hófst sem samstarf Sigurðar Óla Pálmasonar og Sverris Ásmundssonar og segir sagan að dúettinn hafi í fyrst gengið undir nafninu Ástardúettinn Siggi og Sverrir. Smám saman bættist í hópinn og vorið 1993 hlaut hann nafnið Texas Jesús (eftir að hafa gengið undir nafninu Ástarkvintettinn um stuttan tíma) en Texas Jesús nafnið var bein skírskotun til David Koresh sem var forsprakki trúarsafnaðar sem um þetta leyti fyrirskipaði fjöldasjálfsmorð fylgisfólks síns á búgarði sínum í Waco í Texas þegar lögreglan réðist þar til inngöngu, um áttatíu og fimm manns brunnu þar inni.

Meðlimir Texas Jesús, alls sex talsins, voru Einar Jónsson gítarleikari, Jón Ólafur Erlendsson trommuleikari, Lára Lilliendahl Magnúsdóttir trompetleikari og Marteinn Guðberg Vilhjálmsson hljómborðsleikari, Sigurður Óli söng en Sverrir lék á bassa.

Erfitt þótti að skilgreina tónlist Texas Jesú, talað var um teiknimyndatónlist, jafnvel krúttrokk en sveitin þótti einnig skemmtileg á sviði og frumleg í sviðsframkomu og kynningu á tónleikum sínum, hannaði t.a.m. öll sín auglýsingaplaköt sjálf og handvann þau.

Haustið 1993 sendi Texas Jesús frá sér snælduna Nammsla tjammsla en hún hafði að geyma fjórtán lög sem flest voru tekin upp á fjögurra rása upptökutæki í æfingahúsnæði sveitarinnar. Ragnheiður Eiríksdóttir (Unun, Heiða trúbador o.fl.) söng sem gestur á snældunni.

Texas Jesús 1993

Snældan sem gefin var út í rúmlega hundrað tölusettum eintökum, seldist fljótlega upp sem og hundrað eintök sem gerð voru til viðbótar, snælduumslagið var í mismunandi litum. Nammsla tjammsla fékk ágæta dóma í Pressunni.

1994 var sveitin nokkuð áberandi, hún átti lag á safnplötununum Smekkleysa í hálfa öld og Innrás, kornflex og Kanaúlpur, þá höfðu orðið smávægilegar mannabreytingar á henni og t.d. starfaði Fróði Finnsson með henni um tíma – hafði líklega tekið við af Einari gítarleikara.

Margt er óljóst úr sögu Texas Jesú árið 1995, lag með sveitinni var að finna í kvikmyndinni Ein stór fjölskylda en annars virðist sveitin hafa verið í fríi frá því snemma um vorið og fram á haust en þá voru auglýstir útgáfutónleikar með henni. Litlar heimildir er hins vegar að finna um þessa ætluðu plötu utan að svo virðist sem titill hennar hafi verið Texas Jesí og útgáfunúmerið SCD 176 (Skífan). Allar upplýsingar varðandi þessa plötu væru vel þegnar, þá einnig hvort hún kom yfirhöfuð út.

Um haustið 1995 kom Þröstur Jóhannesson gítarleikari til sögunnar (Fróði hafði látist úr krabbameini 1994) en lítið spurðist til sveitarinnar um veturinn 1995-96, það var síðan næsta vor sem auglýst var eftir nýjum gítarleikara og fáeinum vikum síðar kom Pétur Heiðar Þórðarson inn í hana. Um það leyti fór Texas Jesús í víking og herjaði á Danmörku og Finnland um sumarið.

Texas Jesús 1996

Svo virðist sem sveitin hafi þá haft tilbúna plötuna Jæja vinur en hún mun hafa komið út á Skandinavíumarkaði og hér heima einnig, sumarið 1996. Hún hafði að geyma tuttugu lög en nokkur hluti þeirra voru sömu lög og komið höfðu út á Nammsla tjammsla snældunni en verið tekin upp aftur í betri hljómgæðum í Upptökuheimili Geimsteins í Keflavík en Geimsteinn gaf plötuna einnig út. Platan hlaut ágætar viðtökur, þokkalega dóma í Morgunblaðinu og góða í Degi.

Þekktasta lag plötunnar, og þá um leið líklega þekktasta lag sveitarinnar, varð Lamb í grænu túni en það lag hafði ríflega tveim áratugum fyrr komið út á barnaplötu Halldórs Kristinssonar, og var þarna í nýstárlegri útgáfu í flutningi Texas Jesús. Það lag kom síðar (2001) út á afmælissafnplötu Geimsteins, 25 ár.

Þrátt fyrir ágætar viðtökur plötunnar entist Texas Jesú ekki líf nema til hausts 1996, þá var gefið út opinbert dánarvottorð og haldnir formlegir lokatónleikar í nóvember en samhliða því hélt sveitin sýningu á ýmsum munum tengdri sögu hennar, auglýsingaspjöldum og þess háttar.

Sögu sveitarinnar var þó ekki alveg lokið því hún kom saman aftur tólf árum síðar (2008) og ku vera enn starfandi þótt ekki hafi hún farið hátt, mannaskipan hennar er að mestu leyti hin sama og fyrr en Elvar Geir Sævarsson hefur leikið á gítar með sveitinni og er því fimmti gítarleikari hennar en Texas Jesús hefur af einhverjum ástæðum haldist illa á þeim.

Sveitin hefur ekki sent frá sér efni nýlega svo kunnugt sé.

Efni á plötum