Tríó Þorvaldar (1957 / 1981-2001)

Tríó Þorvaldar 1982

Tríó Þorvaldar var starfandi í áratugi en það spilaði mestmegnis danstónlist og gömlu dansana.

Þorvaldur Jónsson harmonikkuleikari frá Torfastöðum á Fljótsdalshéraði var fyrst með tríó í eigin nafnið sumarið 1957 en þá voru ásamt honum í sveitinni þeir Páll Sigfússon trommuleikari og Önundur Magnússon klarinettuleikari. Þeir félagar léku þá á böllum í sveitinni og þótt heimildir um það liggi ekki fyrir er nær víst að tríóið starfaði lengur en þetta eina sumar á sjötta áratug síðustu aldar.

Næst er ekki að frétta af Tríó Þorvaldar fyrr en 1981 þegar sveitin var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu en Þorvaldur hafði þá búið syðra í um einn og hálfan áratug. Þá lék tríóið einkum á dansstöðum á höfuðborgarsvæðinu en síðar einnig víðs vegar á landsbyggðinni, tónlist þess var einkum í gömludansastílnum enda stíluðu þeir félagar mestmegnis á eldri dansunnendur.

Tríó Þorvaldar og Vordís

Meðlimaskipan á þessu síðara skeiði starfstíma tríósins er nokkuð á reiki, 1982 voru þeir Guðmundur Jónsson (oft kenndur við Byrgið) trommuleikari og söngvari og Björgvin [?] gítarleikari með Þorvaldi í tríóinu og síðar var einnig Hjalti Júlíusson með þeim félögum. Aðrir sem hafa verið nefndir í þessu samhengi eru Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari [?] og Rúnar Þór Pétursson en ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega þeir voru meðlimir Tríós Þorvaldar.

Þá söng lengst af með þeim dóttir Þorvaldar, Vordís Þorvaldsdóttir, og gekk sveitin þá undir nafninu Tríó Þorvaldar og Vordís en einnig sungu Mattý Jóhanns (Matthildur Jóhannsdóttir) og Frigg Þorvaldsdóttir (önnur dóttir Þorvaldar) eitthvað með tríóinu.

Tríó Þorvaldar starfaði með hléum allt til ársins 2001.