Vírus [1] (1979)

Hljómsveitin Vírus starfaði um nokkurra mánaða skeið í Neskaupstað á fyrri hluta ársins 1979 en sveitin var stofnuð upp úr skólahljómsveitinni Zeppelin greifa sem þá hafði verið starfandi þar um skeið. Meðlimir þeirrar sveitar voru þeir Sigurður Þorbergsson gítarleikari, Þröstur Rafnsson gítarleikari, Guðjón Steinar Þorláksson bassaleikari, Daníel Þorsteinsson píanóleikari og Kristinn Grétar Harðarson trommuleikari en þegar Guðmundur Sólheim söngvari og hljómborðsleikari bættist í hópinn breytti sveitin fljótlega um nafn og kallaðist Vírus. Einnig söng Kolbrún Sandra Vestmann eitthvað með þeim félögum.

Vírus starfaði á almennum dansleikjamarkaði eystra og lék á þorrablótum, árshátíðum og almennum dansleikjum en sveitin starfaði fram á vorið 1979, þá var ný sveit – Kvöldverður á Nesi (og Prologus) stofnuð upp úr henni með breyttri liðsskipan.