Fóstbræður [3] (1997-2001)

Fyrsta útgáfa Fóstbræðra, 1997

Grínþættirnir Fóstbræður nutu mikilla vinsælda í sjónvarpi í kringum síðustu aldamót og má segja að þeir hafi mótað að nokkru leyti húmor heillar kynslóðar hér á landi. Framleiddar voru fimm seríur af Fóstbræðrum.

Upphaf þáttanna má rekja til þess að sjónvarpsstöðin Stöð 3 leitaði til þeirra Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr til að gera grínþætti en þeir höfðu þá vakið nokkra athygli fyrir gríninnslög í Dagsljósi Ríkissjónvarpsins undir Tvíhöfða-nafninu, þeir Sigurjón og Jón fengu til liðs við sig leikarana Benedikt Erlingsson og Hilmi Snæ Guðnason og einnig bættist Helga Braga Jónsdóttir í hópinn sem var þá fullskipaður.

Í miðju upptökuferlinu keypti Stöð 2 sjónvarpsstöðina Stöð 3 og þegar þættirnir voru frumsýndir um haustið á þeirri stöð slógu þeir í gegn, áhorfssamkeppnin við Spaugstofuna sem þá var í Ríkissjónvarpinu skiptist þá nokkurn veginn eftir kynslóðum en þeir Fóstbræður þóttu bera með sér ferskan blæ í íslensku gríni innblásið af breskum húmor. Viðtökurnar urðu það góðar að alls voru gerðar fimm seríur með Fóstbræðrum sem samtals innihéldu þrjátíu og níu þætti, síðasta serían var framleidd 2001.

Fóstbræður 2001

Einhverjar breytingar urðu á skipan Fóstbræðra þann tíma sem hópurinn starfaði, Hilmir Snær hætti eftir fyrstu seríuna og kom Þorsteinn Guðmundsson inn í hans stað, hinn leikarinn – Benedikt Erlingsson hætti svo eftir þriðju seríu en áður hafði Gunnar Jónsson bæst í hópinn, hin þrjú Jón, Sigurjón og Helga Braga voru með allan tímann. Fjölmargir gestaleikarar komu fram í þáttunum sem almennt eru taldir hafa breytt húmors-landslaginu nokkuð hér á landi. Hópurinn skrifaði efnið sjálfur en þeir Jón og Sigurjón voru þó atkvæðamestir í þeim efnum.

Fóstbræðra-þættirnir voru allir gefnir út á VHS-spólum og síðar DVD-diskum en einnig kom út plata samnefnd hópnum, á vegum Skífunnar árið 2001 með úrvali tónlistar og stuttra atriða úr þáttunum sem þá þegar voru orðin sígild, valið af Eiði Arnarssyni og Friðþjófi Sigurðssyni.

Efni á plötum