
Svavar Guðmundsson
Svavar Guðmundsson tenórsöngvari var einn fjölmargra efnilegra söngvara úr Skagafirðinum, honum gafst þó ekki kostur á söngnámi og varð því ekki úr eiginlegum söngferli hjá honum þótt hann yrði nokkuð þekktur, söng hans má hins vegar heyra á tveimur plötum sem komu út á vegum Fíladelfíu.
Svavar Sigpétur Guðmundsson fæddist haustið 1905 á Sauðárkróki og bjó þar reyndar mest alla sína tíð. Hann var af tónlistarættum, náskyldur Eyþóri Stefánssyni tónskáldi og ólst upp hjá afa sínum og ömmu við ágætt atlæti, hann þótti snemma efnilegur söngvari en hafði ekki kost á því að mennta sig í söng sem þótti miður því að sögn hafði hann alla burði til að komast langt í sönglistinni.
Framan af starfaði Svavar við almenn verkamannastörf til sjós og lands en síðar varð hann bókari og gjaldkeri fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og Sauðárkrókskaupstað. Hann tók nokkurn þátt í tónlistar- og félagslífi Sauðkræklinga, var t.a.m. virkur í leikfélagi bæjarins og var meðal stofnmeðlima Lúðrasveitar Sauðárkróks en þar lék hann á trompet, þá söng hann með kórum á Sauðárkróki s.s. kirkjukór Sauðárkrókskirkju og Karlakór Sauðárkróks. Þáttaskil urðu í lífi Svavars árið 1938 þegar hann frelsaðist og gekk til liðs við Hvítasunnusöfnuðinn á Sauðárkróki og hóf þá að syngja með kór safnaðarins á Króknum sem og sem einsöngvari kórsins.
Næstu áratugina var Svavar virkur í samfélagi Fíladelfíu á Sauðárkróki og söng bæði með kór safnaðarins og einnig söng hann sem einsöngvari í messum og samkomum. Hann varð þekktur sem slíkur og fyrir kom að hann söng einnig t.a.m. á Akureyri og sunnan heiða í Reykjavík og Keflavík, og árið 1967 kom út fjögurra laga plata á vegum útgáfufélags Hvítasunnufólks – Hörpustrengja sem hafði að geyma söng hans við undirleik Árna Arinbjarnarsonar píanóleikara. Tveimur árum síðar kom út önnur plata, með Fíladelfíukórnum í Reykjavík og söng Svavar einsöng á þeirri plötu einnig.
Árið 1974 flutti Svavar til Reykjavíkur og tók virkan þátt í starfinu á höfuðborgarsvæðinu og söng þar bæði með kór safnaðarins en söng einnig alloft einsöng, allt fram til ársins 1979 en hann lést sumarið 1980 eftir að hafa verið heilsuveill um tíma.