Afmælisbörn 8. mars 2023

Karl Hermannsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru í gagnabanka Glatkistunnar í dag:

Karl Hermannsson söngvari úr Keflavík er sjötíu og átta ára gamall á þessum degi en hann fæddist 1945. Fyrsta hljómsveit hans mun líklega hafa verið Skuggar en einnig var hann söngvari um tíma í Hljómum. Söngferil sinn lagði Karl að mestu á hilluna en söng hans má þó heyra á plötunni Hemmi Gunn og Rúnni Júl syngja fyrir börnin og Keflavíkurplötunum ÍBK og Keflavíkurhraðlestin.

Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari (f. 1932) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2013. Hann varð snemma efnilegur á sellóinu og kom fram á tónleikum aðeins fjögurra ára gamall, hann varð síðar virtur í klassíska geira tónlistarinnar og lék með mörgum af fremstu sinfóníuhljómsveitum heimsins. Nokkrar 78 snúninga plötur með sellóleik Erlings komu út á fyrri hluta sjötta áratugarins og í seinni tíð hafa fjölmargar plötur komið út með honum, einnig er hægt að heyra leik hans á plötum með Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Svo er hér að síðustu nefnd Sigríður Helgadóttir en margir þekkja nafn hennar í tengslum við plötuútgáfu og verslanarekstur. Sigríður (f. 1903) rak verslanir sem seldu m.a. hatta, hljóðfæri og hljómplötur en Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur í Vesturveri (við Ingólfstorg) er þeirra þekktust, hún rak jafnframt hljómplötuútgáfu í eigin nafni og mun hafa verið fyrst hérlendis til að gefa út 45 snúninga plötur. Sigríður lést 1954.

Vissir þú að hljómsveitin Brain police gaf hugsanlega út fyrstu plötu aldarinnar í heiminum?