
Swingbræður í sjónvarpssal
Hljómsveitin Swingbræður er flestum gleymd og grafin en hennar hefur verið minnst sem fyrstu hljómsveitar Sigurðar Flosasonar saxófónleikara.
Swingbræður var unglingahljómsveit, líklega stofnuð árið 1979 en hún kom fyrst fram í upphafi árs 1980 og vakti þá strax athygli enda hafði hún að geyma kornunga djasstónlistarmenn, 16-18 ára gamla en þá hafði verið eins konar vakning í djass- og bræðingstónlist meðal ungs fólk og má í því samhengi m.a. nefna Mezzoforte.
Sigurður Flosason saxófónleikari var sem fyrr segir í sveitinni en aðrir meðlimir hennar voru Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari, Jón Björgvinsson trommuleikari, Jóhann Morávek bassaleikari og Konráð Konráðsson básúnuleikari. Fljótlega eftir að Swingbræður hófu að koma fram opinberlega birtist sveitin í sjónvarpsþættinum Á vetrarkvöldi og í kjölfarið á því lék hún margsinnis á djasskvöldum með öllu reyndari tónlistarmönnum. Sveitin kom þó einnig fram á annars konar tónleikum, t.a.m. á tónleikum í Kópavogsbíói um sumarið ásamt nýbylgju- og pönksveitum en meðlimir Swingbræðra áttu einmitt rætur að rekja til Kópavogs, höfðu verið Kópabandinu svokallaða en voru jafnframt með reynslu í lúðrasveitinni Svaninum og Skólalúðrasveit Kópavogs þrátt fyrir ungan aldur.
Swingbræður störfuðu að minnsta kosti fram í desember árið 1980.