Í Neskaupstað starfaði hljómsveit um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar undir nafninu Fónar en þetta mun hafa verið bítlasveit og sú fyrsta sinnar tegundar í bænum – og hugsanlega á öllum Austfjörðum. Fyrir liggur að sveitin var starfandi á árunum 1964 til 66 en að öðru leyti er ekki vitað hversu lengi hún starfaði, það gæti þó hafa verið allt til 1967 því þá var hljómsveitin Austmenn stofnuð að öllum líkindum upp úr Fónum.
Heimildir liggja ekki fyrir um alla meðlimi Fóna, Óli Gjöveraa (Ólafur Friðrik Baldursson) mun hafa verið söngvari sveitarinnar en hann hafði tekið við af Sigurjóni Stefánssyni, Smári Geirsson var í henni og líklega var Arnór Þórhallsson einnig meðal meðlima hennar en upplýsingar um aðra sem og hljóðfæraskipan mætti gjarnan senda Glatkistunni, sem og myndefni sé það til staðar.














































