
Hljómsveit Jan Morávek – auglýsing frá Gúttó
Tékknesk/austurríski tónlistarmaðurinn Jan Morávek bjó og starfaði hér á landi allt frá árinu 1948 og til andláts 1970 en hann var afkastamikill, lék á fjölda hljóðfæra með fjölmörgum tónlistarmönnum og inn á fjölda platna, hann starfrækti jafnframt fjölda hljómsveita af ýmsum stærðum og gerðum sem hér verða til umfjöllunar eftir fremsta megni – upplýsingar eru af skornum skammti um sumar þeirra og oft voru sveitir í hans nafni settar saman eingöngu í því skyni að leika undir söng þekktra söngvara á plötum svo stundum er óljóst hvort um starfandi hljómsveitir var að ræða eða tímabundin upptökuverkefni.
Fyrsta hljómsveitin sem Morávek starfrækti var í veitingahúsi Tívolísins í Vatnsmýrinni árið 1948 en það munu hafa verið einkasamkvæmi enda voru almennir dansleikir ekki haldnir þar fyrr en síðar, þar lék sveitin bæði klassíska tónlist fyrir matargesti og fyrir dansi. Fljótlega fór sveitin hins vegar að leika í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (Gúttó við Tjörnina) og var þar húshljómsveit um nokkurt skeið, sveitin var fyrst um sinn kvintett (fimm manna) og söng Jóhanna Daníelsdóttir mikið með henni í byrjun en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um skipan sveitarinnar í upphafi fyrir utan að hljómsveitarstjórinn Jan Morávek lék á hin ýmsu hljóðfæri – mest þó líklega á klarinettu og fiðlu.
Í Gúttó voru haldin hin svokölluðu SKT böll og samhliða þeim stóðu góðtemplarar fyrir danslagakeppnum (frá og með 1950) þar sem hljómsveit Jan Morávek lék keppnislögin undir söng þekktra söngvara. Um það leyti voru meðlimir sveitarinnar þeir Guðni S. Guðnason harmonikkuleikari, Magnús Pétursson píanóleikari, Jón Sigurðsson bassaleikari og Þorsteinn Eiríksson trommuleikari auk Jans sem jafnframt söng en á laugardögum bættist fiðluleikarinn Ólafur Markússon í hópinn. Sveitin var á þeim tíma einnig að koma nokkuð fram á jam-sessionum á djasskvöldum í Breiðfirðingabúð og vakti þar nokkra athygli fyrir færni sína. Jóhanna söng áfram með sveitinni en fleiri ungar og efnilegar söngkonur komu fram með henni s.s. Guðbjörg Daníelsdóttir, Árdís Jóna Freymóðsdóttir og Heiða Eiríksdóttir og síðar Edda Skagfield og Sigrún Jónsdóttir.
Hljómsveit Jans Morávek hóf nú einnig að leika í kabarett- og revíusýningum í Iðnó og víðar en var þó viðloðandi Gúttó allt fram til snemma árs 1951 en þá virðist sveitin hafa hætt störfum, þá höfðu orðið einhverjar breytingar á henni, Ingþór Haraldsson (sem var líklega þekktastur fyrir leikni sína á munnhörpu) hafði þá starfað með henni um tíma sem og Pétur Urbancic sem hafði leyst Jón bassaleikara af hólmi.
Vorið 1951 hafði Morávek stofnað nýja sveit sem lék í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni en Vetrargarðurinn hafði þá verið opnaður með dansleiki fyrir almenning í huga og var sveitin því hin fyrsta til að leika þar. Þetta var að öllum líkindum tríó sem starfaði þar um sumarið og voru þeir Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari og Árni Ísleifsson píanóleikari líklega með honum þar, Solveig Thorarensen söng með sveitinni. Tríóið hætti síðsumars í Vatnsmýrinni en starfaði þó líklega eitthvað áfram og var Guðjón Pálsson píanóleikari hugsanlega með þá.
Árið 1952 hóf hljómsveit Jans Morávek að leika inn á hljómplötur og þá er óljóst hvort menn voru þá í raun hluti af þeirri sveit sem var starfandi undir stjórn hans eða hvort þeir væru aðeins kallaðir inn í plötuupptökur. Þannig leikur kvartett undir stjórn Morávek á tveggja laga plötu Svavars Lárussonar söngvara, sem skipaður var Braga Hlíðberg harmonikkuleikara, Eyþóri Þorlákssyni gítarleikara og Jón Sigurðssyni bassaleikara auk Jans en annarri plötu sama ár með Soffíu Karlsdóttur og söngkvartettnum Tígulkvartettnum (sem Jan stjórnaði) var kvartettinn orðin að kvintett þar sem Árni Ísleifs píanóleikari og Þorsteinn Eiríksson trommuleikari voru komnir í stað Jóns bassaleikara. Á annarri plötu Tígulkvartettsins sem kom út 1953 var hins vegar um tríó að ræða með þeim Jan á píanó, Eyþóri á gítar og Erwin Koeppen á kontrabassa. Sveit sú sem Jan starfrækti það ár í Þjóðleikhúskjallaranum var aftur á móti skipað Árna Ísleifs píanóleikara, Pétri Urbancic bassaleikara og Jan auk þess sem Haukur Morthens söng eitthvað með þeim, síðar sama ár starfrækti Jan kvartett með Pétri bassaleikara, Jose Riba slagverksleikara og Þorsteini trommuleikara.

Hljómsveit Jan Morávek
Á næstu árum komu út fjölmargar plötur þar sem sveitir Jans Morávek komu við sögu og voru ýmist nefndar tríó, kvartett eða hljómsveit, þessar sveitir léku einnig eitthvað á dansleikjum, kabarettsýningum og tónleikum en sjaldnast er getið um meðlima sveita hans þar – þeim mun meiri upplýsingar er að finna tengdar plötuútgáfunni. Árið 1954 kom fyrst út plata með söng Alfreðs Clausen og Konna (Baldri Tackás) með lögunum Ó elsku mey ég dey / Segðu mér sögu en þar lék kvartett undir stjórn Jans, engar upplýsingar er hins vegar um meðlimi að finna. Næst kom út plata í nafni Tríós Jans Morávek sem hafði að geyma lagasyrpur en þar léku með honum Eyþór Þorláksson og Erwin Koeppen. Plata með söng þeirra Sigurðar Ólafssonar og Soffíu Karlsdóttur við undirleik tríós Jans var næst í röðinni en lögin á henni, Ég bíð þér upp í dans og Síldarvalsinn nutu mikilla vinsælda – ekki liggja fyrir upplýsingar hverjir skipuðu tríóið þar en líklegt að það hafi verið hinir sömu og á áðurnefndri plötu tríósins því næst á eftir kom út önnur plata með því sem einnig hafði innihélt lagasyrpur eins og hin fyrri.
Allar plöturnar sem nefndar eru hér að framan komu út á vegum Íslenzkra tóna og það sama er að segja um plötur sem komu út árið 1955 með hljómsveitum Jans Morávek. Fyrst er að nefna plötu með Ingibjörgu Þorbergs og Marz bræðrum þar sem hljómsveit Jans leikur undir – Pétur Urbancic bassaleikari, Jose Riba slagverksleikari og Þorsteinn Eiríksson trommuleikari leika þar með Jan sem leikur á fiðlu, píanó og fagott. Næst kom út plata með Sigurði Ólafssyni og Soffíu Karlsdóttur (Ég veit ei hvað skal segja / Maður og kona) sem sem tríó Jans leikur undir (án upplýsinga um meðlimi) en svo komu út tvær plötur í nafni Tríós (og kvartett) Jans Morávek með ósungnum lögum en upplýsingar um meðlimi þess er aðeins að finna á annarri, þar léku með honum Stefán Edelstein píanóleikari, Pétur Urbancic bassaleikari og Axel Kristjánsson gítarleikari. Í kjölfarið fylgu tvær plötur með Tóna systrum, önnur ásamt Jóhanni Möller og hin með Alfreð Clausen en hljómsveit Jans virðist skipuð þeim hinum sömu þar. Tvær plötur með Maríu Markan (önnur þeirra einnig með Sigurði Ólafssyni) komu út síðla árs þar sem hljómsveit Jans kemur við sögu, Josef Felzmann fiðluleikari, Carl Billich píanóleikari og Pétur Urbancic leika þar með Morávek sem lék á fiðlu, en á plötu sem kom út með Tóna systrum í lok árs er engar upplýsingar um að finna um meðlimi tríós undir stjórn Jans Morávek.
Um þetta leyti starfaði hljómsveit í nafni Jans Morávek mestmegnis í kabarettsýningum enda var Morávek orðið á fullu í öðrum verkefnum á þessum tíma, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hafði verið stofnuð fáeinum árum fyrr. En hljómsveitir í hans nafni héldu áfram að leika inn á plötur og árið 1956 bættist enn þar við, þá og reyndar einnig 1957 fór mest fyrir samstarfi hans við Alfreð Clausen (og Konna (Baldur Tackás)) en þá komu út sex plötur þar sem hljómsveit hans kom við sögu – sjaldnast er að finna upplýsingar um meðlimi sveitarinnar en þeir Eyþór Þorláksson gítarleikari og Ingþór Haraldsson munnhörpuleikari komu þó eitthvað við sögu á þeim, einnig mun Skapti Ólafsson trommuleikari hafa leikið með hljómsveit hans á plötu með Ingibjörgu Þorbergs og Marz bræðrum sem kom út 1956. Árið 1957 kom jafnframt út plata með Tríói Jans Morávek undir titlinum Við dönsum og syngjum með Tríói Jan Morávek en þess má geta að þarna höfðu 45 snúninga plöturnar leyst 78 snúninga plöturnar af hólmi, Erwin Koeppen og Eyþór Þorláksson léku þarna með Morávek.
Fleiri plötur komu út með Konna (Baldri Tackás) og Alfreð Clausen en einhverjar þeirra voru endurútgáfur á plötum sem áður höfðu komið út á 78 snúningum, svo var einnig með plötu Harmonikutríós Jans Morávék o.fl. en árið 1960 lék hljómsveit í nafni Jans Morávek á fyrstu plötu Ómars Ragnarssonar (Mér er skemmt / Botníuvísur) sem markaði upphaf þess mæta skemmtikrafts á plötum.
Síðustu plöturnar sem höfðu að geyma undirleik Jan Morávek og hljómsveita hans komu út 1962 en þær innihéldu syrpur sungnar af Alfreð Clausen og Sigrúnu Ragnarsdóttur og báru yfirskriftina Hvað er svo glatt..: takið undir með Sigrúnu og Alfreð 1 og Fyrr var oft í koti kátt: takið undir með Sigrúnu og Alfreð 2, á fyrrnefndu plötunni eru Eyþór Þorláksson gítarleikari, Pétur Urbancic bassaleikari og Þorsteinn Eiríksson trommuleikari tilgreindir sem meðlimir sveitarinnar, þá kom einnig út plata undir titlinum 14 barnalög, þar sem Jan Morávek og hljómsveit hans léku undir söng barna af höfuðborgarsvæðinu en líklegt hlýtur að teljast að sami mannskapur hafi leikið á öllum plötunum þremur. Um þetta leyti var Jan Morávek að öllum líkindum hættur að starfrækja hljómsveitir nema einungis í tengslum við plötuupptökur eins og þessar.
Hér að ofan hefur eftir fremsta megni verið reynt að gera grein fyrir hljómsveitum Jans Morávek eftir því sem heimildir gefa til kynna, jafnframt liggur fyrir að Hafliði Jónsson, Magnús Ingimarsson, Baldur Kristjánsson og Karl Lilliendahl störfuðu með honum á einhverjum tímapunkti en hvenær er óvíst.














































