![Reykjavík[1] (2)](https://glatkistan.com/wp-content/uploads/2015/05/reykjavc3adk1-2.jpg?w=300&h=190)
Reykjavík
Mjög erfitt er að finna upplýsingar um hljómsveitina Reykjavík sem starfaði um tveggja ára skeið seinni hluta áttunda áratugarins, og hefur nafn sveitarinnar nokkuð um það að segja.
Reykjavík var stofnuð haustið 1977 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Pétur „kapteinn“ Kristjánsson hljómborðsleikari, Rafn Sigurbjörnsson söngvari, Björn Thoroddsen gítarleikari, Eyjólfur Jónsson trommuleikari og Sigurður Árnason bassaleikari.
Einhverjar mannabreytingar urðu í Reykjavík þann tíma sem hún starfaði og voru þeir Sævar Árnason söngvari og Jónas Björnsson trommuleikari til að mynda komnir í stað þeirra Rafns og Eyjólfs vorið 1978, þá um haustið höfðu enn orðið breytingar á sveitinni og þá voru meðlimir hennar Pétur, Björn, Eyjólfur, Einar Jónsson (bróðir Eyjólfs), Ævar Kvaran [bassaleikari?] og Ólafur Ástgeirsson söngvari.
Sveitin hætti störfum snemma vors 1979 og var Stormsveitin stofnuð upp úr Reykjavík.














































