Risaeðlan (1984-96)

Risaeðlan 1984 (2)

Risaeðlan

Hljómsveitin Risaeðlan skipar sér í flokk með Smekkleysu-hljómsveitum og flytjendum eins og Sykurmolunum, Björk, Ham og Bless sem e.t.v. hlutu meiri athygli á erlendri grundu en íslenskri,

Hljómsveitin var stofnuð í árbyrjun 1984 og var upphaflega sett saman fyrir eina menntaskólauppákomu, meðlimir þessarar fyrstu útgáfu Risaeðlunnar voru Sigurður Guðmundsson gítarleikari, Ívar Ragnarsson bassaleikari, Margrét Örnólfsdóttir hljómborðsleikari og Halldóra Geirharðsdóttir (Dóra Wonder) söngkona og saxófónleikari. Í byrjun var sveitin án trommuleikara en meðlimir hennar höfðu sér til stuðnings trommuheila.

Sem fyrr segir stóð aldrei til að sveitin kæmi saman nema þetta eina skipti en eitthvað varð til að þau héldu samstarfinu áfram. Mannabreytingar urðu þó nokkrar, fyrst bættist Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína) söngkona og fiðluleikari í hópinni 1985 og stuttu síðar trommuleikarinn Valur Gautason.

Risaeðlan starfaði ekki lengi eftir þetta, fór í pásu og lá í híði að mestu til haustsins 1987. Þórarinn Kristjánsson (Vonbrigði, Bubbleflies o.fl.) tók þá við trommunum af Val og þannig skipuð fór sveitin að vekja athygli fyrir tónlist sína, ekki síst fyrir framlag söngkvennanna tveggja sem nýttu saxófón og fiðlu samhliða söng og skópu þar með hljóm sem þótti sérstæður og var hægt að skilgreina sem eins konar skrýtipopp, kannski ekki ólíkt því sem heyrðist hjá Sykurmolunum.

Margrét Örnólfsdóttir hætti í sveitinni vorið 1988 en henni bauðst þá með litlum fyrirvara að gerast hljómborðsleikari Sykurmolanna. Sveitirnar túruðu fyrst saman haustið 1988 í útlöndum og áttu eftir að gera það oftar, en Risaeðlan gekk undir nafninu Reptile á erlendri grundu.

Risaeðlan 1988 (2)

Risaeðlan 1988

Sumarið 1989 kom fyrsta plata Risaeðlunnar út á vegum Smekkleysu, um var að ræða fjögurra laga tólf tommu smáskífu sem fékk mjög góðar viðtökur gagnrýnenda Þjóðviljans og DV en tónlistarskríbent Dags var á allt öðru máli og var mjög neikvæður. Smáskífan fékk góðar viðtökur í Bretlandi en þar var hún valin smáskífa vikunnar hjá NME og kom sveitinni á kortið þar í landi.

Í kjölfar útgáfu plötunnar fór sveitin ásamt Bless og Ham í frægan túr til Bandaríkjanna þar sem sveitirnar spiluðu m.a. á tónlistarhátíð í New York, þessi tónleikaferð var útrásarátak á vegum Smekkleysu undir yfirskriftinni Heimsyfirráð eða dauði (World domination or death) og var samnefnd safnplata gefin út með efni með sveitunum og öðrum flytjendum, á þeirri plötu voru tvö lög með Risaeðlunni/Reptile.

Fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Fame and fossils kom síðan samtímis út á Íslandi, Bandaríkjunum og Bretlandi vorið 1990 en sveitin hafði unnið að upptökum á henni veturinn á undan, Halldóra var þá kasólétt af barni sínu og Skúla Gautasonar (Sniglabandið o.fl.) en barnið (Steiney Skúladóttir) átti síðar eftir að slá í gegn í grínþáttunum Hraðfréttir.

Fame and fossils fékk ágætar viðtökur hér heima þótt ekki seldist platan í bílförmum fremur en flestar aðrar Smekkleysuplötur, gagnrýnendur Morgunblaðsins og DV gáfu plötunni til að mynda góða dóma.

Sveitin lék nokkuð erlendis í kjölfar útgáfu plötunnar, aðallega í Evrópu en hafði einnig spilað í Bandaríkjunum um sumarið. Tveggja laga sjö tommu smáskífan Hope/Kebab kom einnig út með sveitinni um þetta leyti.

Vorið 1991 tók Halldóra þá ákvörðun að hætta í Risaeðlunni til að helga sig leiklistarnámi sem hún var þá á leið í um haustið, skarð hennar var fyllt af gítar- og harmonikkuleikaranum Hreini Stephensen (Dýrið gengur laust o.fl.) en hlutverk þeirra var þó ólíkt innan sveitarinnar. Sveitin spilaði lítið um sumarið af þessum sökum en Hreinn tók við síðsumars.

Um haustið lék Risaeðlan á CMS tónlistarráðstefnunni í Kaupmannahöfn en að öðru leyti fór lítið fyrir hljómsveitinni veturinn 1991-92. Í rauninni spilaði sveitin lítið eftir þetta en fékk iðulega frábæra dóma fyrir framlag sitt, og þótti aldrei hafa verið betri. Og þegar Magga Stína varð ófrísk þá fór sveitin í langa pásu, þótt aldrei hefði opinberlega verið gefið út dánarvottorð á Risaeðluna þá var hún þarna í raun hætt störfum.

Risaeðlan 1990 (2)

Risaeðlan 1990

Heilmikið efni var þó til hálfklárað með hljómsveitinni sem hún hafði verið byrjuð að vinna og sumarið 1996 birtist Risaeðlan útdauða óvænt með fullunna plötu í farteskinu, þá höfðu meðlimir hennar ákveðið að klára að vinna plötuna eftir fjögurra ára pásu, nánast í kyrrþey, og koma henni út.

Platan, sem hlaut titilinn Efta!, hafði að geyma á þriðja tug laga og var eins konar safnplata með lögum af fyrri plötum sveitarinnar en innihélt sem fyrr segir nýtt efni, níu ný lög. Efta! hlaut fremur jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Risaeðlan hélt við það tækifæri útgáfutónleika en lýsti að þeim loknum formlega yfir að sveitin væri nú endanlega hætt störfum. Útgáfutónleikarnir urðu því um leið lokatónleikar hennar, Halldór kom fram með sveitinni á þessum tónleikum.

Eins og íslenskra hljómsveita er siður er lítt mark takandi á yfirlýsingum um endalok þeirra, tæplega áratug síðar, árið 2007 kom Risaeðlan saman og lék í fimmtugs afmæli Árna Matthíassonar blaðamanns á Morgunblaðinu, en hann hafði verið einna duglegastur að koma sveitinni á framfæri og halda merki hennar á lofti.

Margir hafa viljað meina að Risaeðlan hafi verið undir beinum tónlistarlegum áhrifum frá Sykurmolunum en einnig að Kolrassa krókríðandi (Bellatrix) hafi fetað í fótspor Risaeðlunnar, sbr. nýstárlega notkun á fiðlu. Ekki verður mat lagt á það hér en sitt sýnist hverjum. Hitt verður ekki um deilt að Sykurmolarnir opnuðu ýmsar dyr erlendis fyrir Risaeðluna, og segja má líka að Kolrassan hafi fetað þá sömu leið í kjölfar Eðlunnar en allar gáfu sveitirnar út undir merkjum Smekkleysu.

Ekki verður skilið við Risaeðluna án þess að nefna tvö kunn nöfn sem tengjast sögu sveitarinnar, Kormákur Geirharðsson trommuleikari (bróðir Halldóru) mun eitthvað hafa leikið með sveitinni í afleysingum, þess má geta að sjálfur Björgvin Halldórsson syngur bakraddir í einu lagi á plöunni Efta!.

Lög með Risaeðlunni/Reptile hafa komið út á nokkrum safnplötum Smekkleysu í seinni tíð en einnig á öðrum safnútgáfum s.s. Stelpurokki (1997) og safnsnældunni Snarl 3 (1991).

Efni á plötum