Roð (1997-99)

Roð

Júlía söngkona Roðs

Pönkhljómsveitin Roð frá Húsavík starfaði skömmu fyrir síðustu aldamót og vakti nokkra athygli sérstaklega fyrir beinskeytta texta en náði ekki að koma frá sér miklu efni í útgáfuformi.

Sveitin var hluti af húsvísku pönksenunni seinni part tíunda áratugarins en þá var heilmikil vakning norðanlands, sem leiddi ýmist af sér sveitir sem kepptu í Músíktilraunum eða aðrar sem náðu svo langt að gefa út plötu, til lengri tíma litið ól senan af sér tónlistarmenn sem enn eru að í fremstu röð.

Roð var stofnuð snemma árs 1997 og var að líkindum alltaf skipuð sama fólkinu, Júlía Sigurðardóttir söngkona, Guðmundur Svafarsson bassaleikari, Gunnar Sigurðsson trommuleikari og gítarleikararnir Ragnar Hermannsson og Óskar Valgarðsson voru meðlimir sveitarinnar frá upphafi og strax um vorið tók hún þátt í Músíktilraunum Tónabæjar með ágætis árangri þar sem þau komust í úrslit keppninnar. Úrslitakvöldið fór þó ekki eins og ætlast var til því Júlía missti röddina og dró það heldur betur tennurnar úr sveitinni en hún hafði einmitt verið stór partur af því að sveitin fór svo langt.

Sveitin starfaði áfram og var nokkuð lífleg á tónleikasviðinu næsta árið en sumarið 1999 er síðustu fréttir að finna af Roði í fjölmiðlum og má gera ráð fyrir að fjarað hafi undan henni um það leyti.

Ári síðar (2000) kom hins vegar út safnplata sem bar heitið Pönkið er dautt, þar á meðal voru tvö lög með sveitinni frá því á tónleikum í norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð, og voru það einu opinberu minnisvarðarnir um Roð.

Síðan spurðist ekkert til Roðs fyrr en haustið 2015 að eins konar safnplata með sveitinni varð aðgengileg á Bandcamp vefnum (efni frá 1997 og 98) og þar er bæði hægt að streyma og kaupa tónlist sveitarinnar.

Efni á plötum