
Garðar Cortes
Afmælisbörnin eru þrjú í dag:
Garðar (Emanúel) Cortes tenórsöngvari er sjötíu og sex ára í dag. Garðar stundaði söngnám hér heima á Íslandi og í Englandi og að loknu námi sinnti hann ýmsum söngverkefnum hér heima, bæði á sviði og plötum, hefur t.d. gefið út nokkrar plötur sjálfur. Garðar hefur ennfremur stýrt kórum, stofnað og stýrt stofnunum eins og Söngskólanum í Reykjavík, Íslensku óperunni og Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur.
Ketill Jensson tenórsöngvari hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Ketill fæddist í Reykjavík 1925 og stundaði sjómennsku áður en hann hóf söngnám hér heima og á Ítalíu. Söngferill hans varð þó styttri en menn ætluðu en nokkrar plötur komu út með söng hans, þar af ein breiðskífa er hann var liðlega sjötugur. Ketill lést 1994.
Guðmunda Nielsen tónskáld og tónlistarfrömuður á Eyrarbakka átti einnig þennan afmælisdag. Guðmunda fæddist 1885, stýrði kórum, annaðist undirleik og kenndi tónlist í heimabæ sínum Eyrarbakka og sinnti þannig ákveðnu frumkvöðlastarfi í tónlistinni þar í bæ en hún var dóttir kaupmannshjónanna í þorpinu. Guðmunda samdi tónlist sjálf og telst vera með fyrstu ef ekki fyrsta íslenska kventónskáldið. Hún lést 1936.














































