Nemendur nýlistadeildar MHÍ (1979-80)

Nemendur nýlistadeildar MHÍ í tónleikaferðalagi

Frá tónleikum hópsins

Innan Myndlista- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) var starfrækt á sínum tíma nýlistadeild sem var nokkuð umdeild, reyndar svo mjög að Einar Hákonarson skólastjóri skólans vildi leggja deildina niður (sem var stofnuð 1975 af Hildi Hákonardóttur þáverandi skólastjóra) um 1980 en honum fannst óþarft að innan skólans væri sérdeild fyrir nýlist aukinheldur sem nemendur deildarinnar ættu erfitt með að fylgja skólareglum um mætingu og viðveru. Í kjölfarið urðu miklar væringar innan skólans og allir 200 nemendur skólans og einhverjir kennarar fóru í verkfall.

Í þessari ólgu þreifst listin hins vegar og innan nýlistadeildarinnar unnu nemendur tónlistarverkefni með austurríska framúrstefnu tónskáldinu Hermann Nitsch en hann kom hingað til lands fyrir fulltingi Dieters Roth (1930-98) sem kunnur var innan myndlistaheimsins og bjó hérlendis um árabil.

Það voru um tuttugu nemendur sem unnu tvær útgáfur undir stjórn Nitsch, annars vegar var um að ræða tvöfalda albúmið, Summer music, sem hafði að geyma eina litla og aðra stóra plötu (1979), hins vegar sex platna kassa undir yfirskriftinni Hermann Nitsch: Island eine Sinfonie in 10 Sätze (1980).

Íslandssinfónían var gefin út í tvö hundruð eintaka upplagi en endurútgefin á snældu árið 1989, 1996 var hún síðan enn gefin út á geislaplötuformi, líklega þó einungis í Bretlandi. Það var Dieter Roth‘s Verlag sem gaf plöturnar út en þær voru teknar upp í hljóðveri Dieters á Bala í Mosfellssveit vorið 1980.

Eins og lesendur hafa e.t.v. glöggvað sig á voru listanemarnir óskólagengnir í tónlist og því var flutningurinn á verkinu með öllu óhefðbundinn en sveitin var skipuð ýmsum strengja- og blásturshljóðfærum s.s. fiðlum, sellóum, básúnum og hornum

Um það leyti sem sex platna pakkinn var að koma út var nemunum boðið á tónlistarhátíð í Basel í Sviss þar sem hópurinn flutti tónverkið, áður hafði það verið flutt í Menntaskólanum við Hamrahlíð að sögn við misjafnar undirtektir. Undirtektirnar voru einnig nokkuð misjafnar í utanförinni en auk þess að leika á tónlistarhátíðinni í Sviss (þar sem um helmingur hundrað og fimmtíu áhorfenda gengu út áður en tónleikunum lauk), héldu þau tónleika einnig í Vín og Innsbruck í Austurríki og München í Þýskalandi. Alls staðar urðu einhver læti á tónleikum þeirra.

Þess má geta að hluti nemanna var síðar í gjörningasveitinni Bruni BB sem átti eftir að vekja athygli og óhug en aðrir birtust í sveitum eins og Hljómsveit Ellu Magg og Inferno 5. Einnig voru innan hópsins aðilar sem áttu eftir að verða þekktir í öðrum kimum listgeirans, s.s. Ari Kristinsson kvikmyndagerðarmaður og Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur).

Efni á plötum