The Boys (1992-96)

The Boys

Dúettinn The Boys sló í gegn í Noregi og Íslandi á síðasta áratug 20. aldarinnar og gaf út þrjár plötur sem nutu nokkurra vinsælda, einkum sú fyrsta, þeir teljast þó á mörkum þess að geta talist barnastjörnur í íslenskri tónlistarsögu þar eð þeir störfuðu og bjuggu erlendis.

The Boys, bræðurnir Arnar (1982) og Rúnar Halldórssynir (1980) höfðu búið í Skjelsvik í Noregi síðan 1987 og voru því að mörgu leyti jafn norskir og íslenskir. Faðir þeirra Halldór Kristinsson hafði verið þekktur tónlistarmaður hér heima og verið í hljómsveitum eins og Þremur á palli, Tempó og fleiri sveitum og auk þess gefið út fimm laga barnaplötu, og móðir þeirra, Eyrún Antonsdóttir hafði leikið og sungið í uppfærslu á leikritinu Litlu Ljót sem gefin var út á plötu á vegum SG-hljómplatna. Þeir höfðu því sönginn og tónlistina í blóðinu og kenndi faðir þeirra þeim á gítar einnig, þá var tónlistarlegt uppeldi þeirra með þeim hætti að þeir hlustuðu jafnt á tónlist Edvard Grieg og The Beatles.

Með þetta í farteskinu voru bræðurnir vorið 1992 skráðir til leiks undir nafninu The Boys í hæfileikakeppni Varden/Busk sem haldin hafði verið árlega um nokkurt skeið í Noregi og voru þeir þar meðal um fjögur hundruð keppenda. Þá var Rúnar tólf ára og Arnar nýorðinn ellefu ára og höfðu þeir stöku sinnum komið fram og sungið á skólaskemmtunum og þess konar samkomum en að öðru leyti voru þeir ekki sviðsvanir.

Bræðurnir komust í úrslit Varden/Busk keppninnar og ferðuðust víðs vegar um Noreg sumarið 1992 þar sem þeir sungu á tugum tónleikum og bræddu ungmeyjahjörtun í hrönnum sem og hjörtu mæðranna þar sem þeir sungu gamla slagara með Bítlunum, Everly brothers og fleiri tónlistarmönnum. Þá öðluðust þeir almenna frægð þegar þeir birtust í norsku sjónvarpi.

The Boys með gítara á lofti

Fréttir af afrekum þeirra Arnars og Rúnars bárust hingað til lands um sumarið 1993 eða um svipað leyti og fyrsta plata bræðranna kom út á vegum Busk records, sem var annar þeirra aðila sem hélt utan um keppnina og hafði boðið þeim þriggja ára útgáfusamning sem átti að ná yfir útgáfu þriggja platna á tímabilinu. Platan hét einfaldlega The Boys og seldist strax gríðarlega vel, sagan segir að hún hafi selst í um 73.000 eintökum í forsölu sem var einsdæmi í Noregi en líklega voru einhverjar ýkjur með þær tölur, reyndar voru sölutölur þær sem birtust í íslenskum fjölmiðlum afar mismunandi, allt frá 40.000 og upp í 100.000 eintök. Hér á Íslandi seldist platan einnig vel en hún seldist alls í um sjö þúsund eintökum.

Í ágúst komu þeir bræður fram á styrktartónleikum í Noregi þar sem um tuttugu og fimm þúsund áhorfendur voru viðstaddir en tónleikunum var sjónvarpað og var talið að um tvær milljónir manna hefðu horft á útsendinguna. Þar sungu þeir m.a. með diskódrottningunni Donnu Summer og slógu í gegn.

Segja má að frægð þeirra í Noregi hafi um þetta leyti náð ákveðnu óþægindastigi fyrir þá bræður og fjölskyldu þeirra en þúsundir aðdáendabréfa bárust þeim og mun póstþjónustan í bæ þeirra hafa neitað að bera út allan póstinn til þeirra og þurftu þau að sækja póst sinn sjálf. Þá stoppaði heimilissíminn ekki og þurfti fjölskyldan að fá leyninúmer og endurnýja þau reglulega. Sagan segir að símanúmer þeirra hafi gengið kaupum og sölum milli aðdáendanna sem flestir voru kvenkyns. Ennfremur má segja að eins konar The Boys-æði hafi gengið yfir Noreg, The Boys vikur voru haldnar á útvarpsstöðvum og þar fram eftir götunum.

Fjölskyldan með hljómsveitarbílinn

Síðar um haustið 1993 komu þeir í stutta heimsókn til Íslands og sungu þá í þætti Hemma Gunn, Á tali en í þeirri för heimsótti fjölskyldan einnig forseta Íslands á Bessastöðum, Vigdísi Finnbogadóttur.

Reglulega birtust hérlendis fréttir af The Boys og m.a. að þeir bræður og reyndar fjölskyldan öll hefðu komið fram í jólaþætti í norska ríkissjónvarpinu og sungið þar, og í kjölfarið var talað um að fjölskyldan myndi jafnvel gefa út plötu saman. Fyrr um haustið höfðu þeir farið í fjörutíu tónleika túr um Noreg og ferðuðust þeir þá með bíl merktum The Boys, og höfðu með sér kennara svo þeir færu ekki á mis við skólaskylduna.

En hingað til komu þeir bræður aftur vorið 1994 en þá var einmitt plata númer tvö að koma út, The Boys 2. Í þetta skipti komu þeir til að halda tónleika en fernir slíkir voru haldnir, tvennir í Kaplakrika, einir á Egilsstöðum og einir í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem um sjö hundruð manns mættu og skemmtu sér við söng þeirra bræðra. Á Akureyri mun hafa verið starfræktur aðdáendaklúbbur í nafni The Boys. Þeir Arnar og Rúnar fengu afhendar gullplötur fyrir plötusölu hér á landi á meðan þeir dvöldu hér.

The Boys 2 hlaut ekki eins mikla athygli og fyrsta platan en tónlistin á báðum plötunum var helguð svipuðu prógrammi og lagt var upp með í upphafi, smellir frá sjötta og sjöunda áratugnum. Þá var áætlað að þriðja platan kæmi út fyrir jólin 1994 og sagði Halldór faðir þeirra í blaðaviðtali að hann ætlaði að semja efni að hluta til að minnsta kosti, á hana.

Bræðurnir komu aftur til Íslands um haustið 1994 og komu þá fram á tónleikum sem haldnir voru í Langholtskirkju til styrktar kaupum á orgeli í kirkjunni. Í þeirri sömu ferð voru þeir fermdir í kirkjunni en tengsl þeirra við kirkjuna voru þau að afi þeirra, Kristinn Sigurjónsson hafði verið yfirsmiður við smíði hennar og auk þess í sóknarnefnd Langholtskirkju til margra ára.

The Boys með Björk á milli sín

Ekki varð úr að þriðja platan kæmi út fyrir jólin eins og talað var um og reyndar kom hún ekki út fyrr en haustið 1995, og hafði að geyma sömu uppskrift og hinar plöturnar tvær, gamla slagara. Hún hét The Boys 3 og í fyrsta sinn birtist plötudómur um plötu þeirra bræðra hérlendis, hún fékk þó fremur slaka dóma í DV.

Þegar hér var komið sögu höfðu þeir Arnar og Rúnar dregið sig nokkuð í hlé frá sviðsljósinu og var stærsta ástæðan fyrir því að raddsvið þeirra var að breytast enda fóru þeir í mútur eins og jafnaldrar þeirra. Þeir höfðu þó farið til Ítalíu að skemmta snemma á árinu 1995 en að öðru leyti heyrðist lítið frá þeim hingað til Íslands.

Frétt þess efnis birtist síðan haustið 1996 að The Boys væru hættir en þeir voru þá fluttir heim til Íslands. Aðspurðir höfðu þeir í hyggju að stofna hljómsveit hér á landi allt annars eðlis en þeir höfðu hingað til fengist við, jafnvel pönksveit. Þeir vöktu síðan einhverja athygli nokkru síðar með hljómsveitinni Spinoza og enn síðar fóru þeir í tónleikaferð í kringum landið með frumsamið efni, ásamt Bergþóru Árnadóttur.

Að öðru leyti hafa þeir bræður lítið komið að tónlist hin síðari ár, Rúnar er arkitekt og Arnar grafískur hönnuður.

Efni á plötum