Breiðfirðingabúð [tónlistartengdur staður] (1946-69 / 1990-)

Breiðfirðingabúð

Breiðfirðingabúð (hin fyrri) er meðal þekktustu dansleikjahúsa íslenskrar tónlistarsögu en þar léku vinsælustu hljómsveitir landsins hverju sinni á böllum sem margir komnir á efri ár muna vel.

Það var Breiðfirðingafélagið í Reykjavík, átthagafélag Breiðfirðinga (stofnað í lok árs 1938), sem hafði frá stofnun séð nauðsyn þess að hafa eigið húsnæði til ráðstöfunar enda náði félagssvæði þess yfir þrjár sýslur við Breiðafjörðinn og voru félagsmenn um níu hundruð og fimmtíu talsins (fjölmennasta átthagafélag landsins) þegar Breiðfirðingabúð var tekin í notkun.

Hugmyndin um eigið húsnæði félagsins hafði komið upp um miðjan fimmta áratuginn og var stofnað hlutafélag utan það, þegar húsnæði við Skólavörðustíg númer 4, 6 og 6b bauðst var stokkið til og það keypt. Um var að ræða bakhús neðst við Skólavörðustíginn en áður hafði verið húsgagnasmiðja í húsinu.

Húsið sem hlaut nafnið Breiðfirðingabúð (oft einnig nefnd Búðin) var vígt vorið 1946 og varð strax vettvangur fjörugs skemmtanalífs Íslendinga eftir seinna stríð. Búðin var auðvitað fyrst og fremst félagsheimili Breiðfirðingafélagsins og hið fyrsta sinnar tegundar, en félagið leigði húsið síðan út til skemmtanahalds og annarra samkoma.

Breiðfirðingabúð var á tveimur hæðum og voru salir á báðum hæðum en auk þess smærri fundarherbergi og hentaði því blandaðri starfsemi, og gat almenningur leigt aðstöðu þar einnig.

Breiðfirðingabúð, Skólavörðustígur í forgrunni

Fjölmennir dansleikir voru haldnir í húsinu á árunum 1946 til 69 og voru bæði húshljómsveitir ráðnar þar til starfa og þekktar ballsveitir til að leika á stökum dansleikjum. Meðal sveita sem þar léku má nefna Hljómsveit Svavars Gests, Tempó, Pónik og Hljómsveit Björns R. Einarssonar svo aðeins örfáar séu nefndar en venjulega var skiptingin á þann veg að gömlu dansarnir voru á neðri hæðinni en vinsælustu poppsveitirnar á þeirri efri.

Breiðfirðingafélagið var sjálft auðvitað með ýmis konar deildarskipta starfsemi í húsinu enda um félagsheimili þeirra að ræða, bridgedeild, handavinnudeild og tafldeild voru hluti af starfseminni þar og Breiðfirðingakórinn æfði í húsinu en annars konar félagsstarf var þar einnig á vegum félagins. Eftir 1960 minnkaði eiginleg starfsemi þess enda höfðu þá bæði Barðstrendingar og Snæfellingar klofið sig frá félaginu og stofnað eigin félög, félagsstarf Breiðfirðinga varð þá einungis bundin við fáeinar samkomur á ári á meðan almennu böllin nutu æ meiri vinsælda í húsinu, en líklega var lifandi tónlist í húsinu meira og minna öll kvöld vikunnar.

Svo fór að Breiðfirðingafélagið seldi eignina árið 1969 og þá lagðist skemmtanahald niður í Breiðfirðingabúð. Íslenska dýrasafnið var í húsinu í fjölmörg ár á áttunda og níunda áratugnum (1970-82) og gekk það allan tímann undir nafninu Breiðfirðingabúð, að lokum var húsnæðið rifið árið 1984 og lauk þá sögu þessa sögufræga húss.

Ríflega áratugur leið uns Breiðfirðingafélagið í Reykjavík opnaði nýja Breiðfirðingabúð en það var í Faxafeni í kringum 1990. Það hús hefur síðan þá verið afdrep félagsins og er enn leigt til ýmis konar starfsemi sem þó er með nokkuð öðruvísi hætti en það öfluga dansleikjahald sem viðgekkst á Skólavörðustígnum. Salir þar eru til útleigu fyrir smærri dansleiki, árshátíðir og ýmis konar tónlistartengdan flutning sem og aðra starfsemi svo sem fermingarveislur og þess háttar.

Ein athugasemd við “Breiðfirðingabúð [tónlistartengdur staður] (1946-69 / 1990-)

  1. Bakvísun: ROKK OG RÓL Á SKÓLAVÖRÐUSTÍG ’56 | Eiríkur Jónsson

Ummæli eru ekki leyfð.