Flow (1995-97)

Flow

Hljómsveitin Flow frá Akureyri starfaði um tveggja ára skeið en var í raun hlekkur í sveit sem starfaði undir nokkrum  nöfnum.

Sveitin hafði áður gengið undir nafninu Border og tók þátt í Músíktilraunum vorið 1995 undir því nafni, sveitin var þá skipuð þeim Karli Henrý Hákonarsyni söngvara og bassaleikara, Friðriki Flosasyni gítarleikara, Inga Þór Tryggvasyni söngvara og gítarleikara, Guðmundi Rúnari Brynjarssyni trommuleikara og Hildigunni Árnadóttur söngkonu. Nokkrum vikum síðar hafði sveitin breytt nafni sínu í Flow en ekki liggur fyrir hverjar eða hvort einhverjar mannabreytingar urðu í henni.

Flow starfaði sem fyrr segir í um tvö ár og lék nokkuð á tónleikum bæði norðan heiða og sunnan, sumarið hafði sveitin hljóðritað nokkur lög sem fengu einhverja spilun a.m.k. á akureysku útvarpsstöðinni Frostrásinni en einnig var sveitin meðal tónlistarflytjenda í stuttmyndinni Gas sem sýnd var um svipað leyti.

Sveitin starfaði undir þessu nafni fram á vorið 1997 en þá urðu einhverjar mannabreytingar í henni og nafnið Ólund var tekið upp í staðinn.