
Þrír fjórðu hlutar Formaiku
Hljómsveitin Formaika starfaði í rétt tæplega tvö ár í byrjun tíunda áratugar liðinnar aldar og náði á þeim tíma að senda frá sér eina smáskífu.
Formaika var stofnuð í ársbyrjun 1990 og voru meðlimir hennar Einar Pétur Heiðarsson trommuleikari, Karl Ægir Karlsson bassaleikari, Ottó Tynes söngvari og gítarleikari og Vernharður Jósefsson gítarleikari. Sveitin sem lék eins konar dansrokk, lék á fáeinum tónleikum um sumarið og haustið, og fór í hljóðver síðla árs þar sem tvö frumsamin lög voru hljóðrituð undir stjórn Jóns Skugga Steinþórssonar.
Lögin komu svo út á lítilli plötu um vorið 1991 en sá misskilningur varð milli sveitarinnar og prentsmiðjunnar sem annaðist prentun umslaganna að þau voru gerð fyrir stórar plötur, af þeim sökum er platan sjálf (7 tomman) í tólf tommu umslagi.
Sveitin starfaði ekki lengi eftir útgáfu plötunnar, og lék líklega síðast opinberlega um haustið 1991.