Stingandi strá (1992-97 / 2005)

Stingandi strá 1994

Hljómsveitin Stingandi strá er ekki með þekktustu rokksveitum hérlendis en sveitin á sér þó heilmikla sögu sem spannar víða um Evrópu en hún fór m.a. í nokkurra mánaða tónleikatúr um álfuna, ein plata liggur eftir sveitina.

Stingandi strá mun hafa verið stofnuð síðla árs 1992 af Sigvarði Ara Huldarssyni gítarleikara og Sævari Ara Finnbogasyni gítarleikara og söngvara en þeir fengu fljótlega til liðs við sig Hrólf Sæmundsson bassaleikara og söngvara – og síðar óperusöngvara. Þeir félagar voru lengi vel í vandræðum með trommuleikara og nokkrir munu hafa komið við sögu sveitarinnar fyrstu mánuðina, litlar upplýsingar er að finna um þá nema að einn þeirra hét Ragnar [?] og lék með sveitinni í fyrsta sem hún kom fram opinberlega – á listakvöldi Alþýðufylkingarinnar vorið 1993. Fljótlega eftir það tók Guðjón Þór Baldursson við trommunum og þannig var Stingandi strá lengst af skipuð. Hugsanlega var Valtýr Björn Thors eitthvað viðloðandi sveitina en ekki liggur þó fyrir hvenær.

Stingandi strá 1995

Stráin fóru rólega af stað í tónleikahaldi, léku þó í nokkur skipti á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á Púlsinum en sveitin var alla tíð með frumsamið efni á efnisskrá sinni. Það voru svo sumarið 1994 sem þeir félagar fór almennilega af stað en þá höfðu þeir þau plön um að hljóðrita efni á plötu, um haustið fóru þeir í þriggja mánaða reisu um Evrópu sem þeir hófu í Danmörku en keyptu síðan sendibíl í Þýskalandi sem þeir ferðuðust um milli tónleikastaða og var það mikil ævintýraferð. Í ferðinni hljóðrituðu þeir um tug laga, annars vegar í Berlín en hins vegar í Marseille í Frakklandi og þegar þeir komu heim eftir ferðina var farið að vinna úr því efni, hér heima voru svo nokkur lög hljóðrituð í viðbót og efnið allt hljóðblandað hérlendis.

Platan leit svo dagsins ljós haustið 1995 undir nafninu Umhverfisóður en þeir gáfu skífuna út sjálfir. Hún fór reyndar ekki hátt og fékk fremur slaka dóma í Morgunblaðinu, þó einkum fyrir slakan hljóm. Sveitin fylgdi plötunni eftir með nokkurri spilamennsku um veturinn en þá var ráðgert að þeir félagar færu aftur utan eftir áramótin 1995-96 til að leika í Frakklandi en þeir höfðu þá ákveðið að gefa út enska útgáfu af skífunni – sú plata leit þó aldrei ljós en einhverjir útsendarar franskrar plötuútgáfu mun hafa komið hingað til lands til að hlýða á sveitina.

Lítið var að frétta af Stingandi stráum eftir þetta, fyrir liggur að sveitin fór aftur utan árið 1996 og spilaði m.a. í Portúgal fyrir þúsundir manna en þeir spiluðu lítið hér heima, sveitin starfaði eitthvað fram eftir árinu 1997. Hluti sveitarinnar starfaði saman undir nafninu Alias en um haustið höfðu þeir stofnað nýja sveit upp úr Stingandi stráum sem bar nafnið Tilfelli, sú sveit varð líklega fremur skammlíf.

Stingandi strá

Nokkur ár liðu, menn menntuðu sig og komu undir sig fótunum með fjölskyldur og börn, sumarið 2005 birtust Stingandi strá aftur og léku þá í Galtalækjarskógi um verslunarmannahelgina og svo á Menningarnótt í Reykjavík fáum vikum síðar en síðan virðist sveitin hafa lognast útaf á nýjan leik, þrátt fyrir yfirlýsingar um að þeir ætluðu að gefa út plötu um veturinn. Sú útgáfa sem starfaði 2005 var skipuð sama mannskap utan þess að enn einn trommuleikarinn kom þá við sögu sveitarinnar, það var Kjartan Guðnason.

Efni á plötum