Stórsveit Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð (1983-2012)

Stórsveit Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð

Stór og öflug harmonikkusveit starfaði um árabil beggja megin aldamótanna innan Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð og lék bæði á tónleikum, dansleikjum og öðrum skemmtunum innan og utan félagsstarfsins, sveitin fór jafnvel utan til spilamennsku.

Stórsveit Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð var stofnuð fljótlega eftir að félagsskapurinn var settur á laggirnar haustið 1980 en sveitarinnar er fyrst getið í fundargerðarbók árið 1983. Fyrstur til að stjórna henni var Karl Jónatansson sem hafði stofnað stórsveitina en Hannes Arason tók við af honum. Atli Guðlaugsson varð svo stjórnandi sveitarinnar 1985 og stýrði henni allt til ársins 1999 (starfsemi hennar lá reyndar niðri veturinn 1990-91) en þá var komið af Birni Leifssyni og síðan Ingva Vaclav en Roar Kvam tók við 2008 og stjórnaði henni síðustu árin sem hún starfaði eða til 2012.

Undir það síðasta hafði fækkað verulega í sveitinni, þá voru aðeins sex meðlimir eftir í henni enda voru þeir farnir að eldast töluvert – sumir voru hættir og aðrir hreinlega fallnir frá og lítil sem engin endurnýjun hafði verið í sveitinni á þeim tæplega þrjátíu árum sem hún starfaði. Framan af höfðu stórsveitarmeðlimir verið á bilinu tólf til sextán talsins, jafnvel fleiri og svo trommu-, bassa- og gítarleikari, þá hafði sveitin leikið þríradda harmonikkuútsetningar en þegar fækkaði voru útsetningarnar einfaldaðar.

Stórsveit FHUE

Stórsveit Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð spilaði mikið meðan hún starfaði enda var félagið mjög virkt á þeim tíma og fór sveitin m.a.s. til Noregs árið 1989, sveitin spilaði bæði danstónlist og léttklassík og naut töluverðra vinsælda á sínu heimasvæði. Líklegt er að hún hafi átt efni á plötu sem félagið sendi frá sér í tilefni af 25 ára afmæli sínu árið 2007 en upplýsingar finnast þó ekki um það.