Svavar Pétur Eysteinsson (1977-2022)

Svavar Pétur Eysteinsson

Svavar Pétur Eysteinsson var fyrst og fremst þekktur sem sóló tónlistamaðurinn Prins Póló, sem reyndar gat orðið að hljómsveit þegar á þurfti að halda en hann var einnig í þekktum sveitum eins og Rúnk og Skakkamanage. Eiginkona Svavars Péturs, Berglind Häsler starfaði oft með honum í tónlistinni en saman urðu þau einnig þekkt fyrir margvísleg verkefni tengt ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og baráttumálum.

Svavar Pétur Eysteinsson var fæddur í Reykjavík vorið 1977 og ólst hann upp í Breiðholtinu, sem hann hafði alltaf taugar til. Svavar ku hafa lært á gítar hjá Ólafi Gauki Þórhallssyni í tvo vetur en var að mestu leyti sjálfmenntaður gítarleikari. Fimmtán ára gamall steig hann á svið sem gítarleikari með hljómsveit sinni Blimp í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1992 en hún hafði verið stofnuð ári fyrr og starfaði eitthvað áfram eftir tilraunirnar, þeir félagar komust ekki í úrslit keppninnar.

Fljótlega eftir Blimp var pönkhljómsveitin Muleskinner stofnuð árið 1993 en sú sveit hlaut fljótlega nýtt nafn, Múldýrið og starfaði í nokkur ár undir því nafni. Með Svavari Pétri voru nokkrir félagar sem síðar áttu eftir að vera viðloðandi tónlist en sveitin sendi frá sér fjögurra laga sjö tommu vínylplötu haustið 1996, Svavar Pétur stofnaði útgáfufyrirtækið Skakkamanage til að gefa hana út en sjö tommur voru ekki beinlínis algengar á þeim tíma. Hljómsveitin Emmett var stofnuð upp úr Múldýrinu og kom út tveimur lögum á safnplötu haustið 1997 en hún var að einhverju leyti skipuð sömu meðlimum og fyrrnefnda sveitin auk annarra sem síðar vöktu athygli í indírokk-senunni en þessi kynslóð átti eftir að ganga undir nafninu krúttkynslóðin og setja mark sitt íslenska tónlist. Svavar Pétur lék á hljómborð og gítar með Emmett en sveitin þótti öflug á sviði

Svavar Pétur árið 2003

Að stúdentsprófi loknu tók við nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og á meðan því stóð vann Svavar Pétur nokkuð við myndlist, tók þá m.a. þátt í myndlistasýningum ásamt fleirum og var einnig viðloðandi heimildamyndagerð. Tónlistin var þó ekki langt undan og um tíma lék hann með Singapore Sling á tónleikum en sumarið 2001 fékk Hildur Guðnadóttir sem þá starfaði með tónlistarhópnum Tónaflokknum í tengslum við Hitt húsið boð um að fara með hópinn á tónlistahátíð í Belgíu, ekki nema lítill hluti hópsins komst í þá ferð og kallaði hún þá til mannskap sem fór utan og tók upp nafnið Rúnk. Svavar Pétur var í þeirri sveit en einnig Björn Kristjánsson (Borko) og Óli Björn Ólafsson (ÓBÓ) en Hildur og Benedikt Hermann Hermannsson (Benni Hemm Hemm) voru fulltrúar Tónaflokksins. Hópurinn náði vel saman og Rúnk starfaði áfram eftir Belgíuferðina, gaf út jólaplötuna Jólin eru… fyrir jólin 2001 og svo plötuna Ghengi Dahls ári síðar. Sú sveit vakti töluverða athygli og lék m.a. á sumarhátíð sem hópurinn hélt í Viðey um sumarið 2002.

Vorið 2003 útskrifaðist Svavar Pétur sem grafískur hönnuður og var útskriftarverkefni hans borðspil sem fjallaði um hljómsveit á tónleikaferð um heiminn. Hann átti eftir að starfa nokkuð við grafíska hönnun s.s. við að hanna bókakápur, plötuumslög og fleira, og myndlistaráhuginn var alla tíð til staðar og hélt hann fjölmargar myndlistarsýningar á næstu árum ýmist einn eða með öðrum.

Um haustið 2003 sendi Svavar Pétur frá sér sína fyrstu eiginlegu sólóplötu, sjö laga plötu undir nafninu Skakkamanage (sama nafni og útgáfufyrirtækið hét sem gaf út Múldýrið) og platan bar þennan sama titil einnig. Hún fór ekki hátt en dómur birtist um hana í Morgunblaðinu og var þokkalega jákvæður, á plötunni sá hann um nánast allt sjálfur, allan hljóðfæraleik, hljóðvinnslu og hönnun en naut aðstoðar söngkonu í tveimur laganna. Hann var með annan fótinn í Berlín um þetta leyti en kom þó eitthvað fram undir Skakkamanage nafninu s.s. þegar hann spilaði á Iceland Airwaves og hitaði upp fyrir bandarísku sveitina Sebadoh en fljótlega bættist honum liðsauki í Berglindi Häsler verðandi eiginkonu sinni og Þormóði Dagssyni, og tríóið Skakkamanage varð til í kjölfarið.

Skakkamanage fékk nokkurt pláss næstu misserin og sveitin lék töluvert, m.a. á tónlistarhátíðinni Innipúkanum sem haldin var um verslunarmannahelgina 2004 en Svavar Pétur var einn af skipuleggjendum þeirrar hátíðar næstu árin og reyndar héldu þau Berglind utan um fleiri hátíðir s.s. listahátíðina Krútt 2005 á Snæfellsnesi, Látíð í bæ o.fl. Skakkamanage gaf út smáskífu árið 2005 og ári síðar kom út breiðskífan Lab of love með sveitinni og þá var hún orðin sex manna, um það leyti fór hópurinn til að leika á tónleikum í Þýskalandi og síðar í Japan en platan var gefin út þar í landi einnig, hún hlaut afar góðar viðtökur hér heima.

Svavar Pétur / Prins Póló

Veturinn 2006 til 2007 bjuggu hjónin um nokkurra mánaða skeið í Barcelona en komu heim um sumarið en vorið 2008 var förinni heitið austur á Seyðisfjörð þar sem þau bjuggu um eins árs skeið. Þau hjónin voru þó á ferð með Skakkamanage sem sendi frá sér nýja plötu – All over the place en sendu einnig frá sér ábreiðu af laginu Stolt siglir fleyið mitt um haustið og gáfu út átta laga plötu í kjölfarið undir nafninu Létt á bárunni, platan hlaut titilinn Sexí og kom út vorið 2009. Og þarna í miðri kreppu virtist sköpunargleðin við völd því sjálfur Prins Póló fæddist austur á fjörðum um veturinn og átti smám saman eftir að verða stórt nafn í tónlistinni á Íslandi.

Svavar Pétur og fjölskylda komu suður til Reykjavíkur um vorið 2009, fylgdu Létt á bárunni-plötunni lítillega eftir og um svipað leyti kom fyrsta plata Prins Póló út, hún bar heitið Einn heima og var fjögurra laga þröngskífa þar sem lagið Átján og hundrað fékk töluverða athygli og gaf forsmekkinn að þeim húmor og frásagnarstíl sem æ síðan einkenndi texta Prinsins, lögin voru einfalt gítarpopp – jafnvel skilgreint sem skrýtipopp og platan fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda. Skakkamanage starfaði áfram um sumarið og fór í stutta ferð til Þýskalands en Lab of love var þá að koma út í Evrópu.

En það bar einnig til tíðinda hjá þeim Svavari Pétri og Berglindi um haustið 2009 að þau opnuðu „menningarsetrið“ Havarí í Austurstræti en um var að ræða eins konar samstarfsverkefni Gogoyoko, Kimi records, Borgarinnar hljómplatna og Skakkapopps útgáfufyrirtæki Svavars Péturs. Havarí var allt í senn, plötubúð, myndlistar- og hönnunargallerí og tónleikastaður, og síðar bættust einnig við kaffihús og bókabúð. Svavar starfaði samhliða þessu verkefni við hönnun og myndlist sem fyrr og var á þessum tíma farinn að prófa sig áfram með veggspjöld sem síðar urðu þekkt. Um þetta leyti voru hjónin jafnframt lítillega farin að gera tilraunir með matvæli en Svavar var þá að mestu hættur að borða kjöt.

En Prinsinn var fæddur og haustið 2010 kom fyrsta breiðskífa hans út, hún hlaut nafnið Jukk og fékk fínustu dóma gagnrýnenda, í kjölfarið stækkaði Prins Póló og varð að hljómsveit þegar halda þurfti tónleika en framan af hafði Svavar Pétur komið einn fram í nafni Prinsins. Niðrá strönd naut mestrar hylli laganna en þó í raun ekki fyrr en búið var að endurhljóðblanda það í eins konar dansútgáfu. Jukk kom svo út á vínylformi árið eftir (og einnig víða um heim) sem og smáskífa af laginu Niðrá strönd með þremur útgáfum af laginu.

Havarí ævintýrið gekk að óskum og naut t.a.m. vinsælda meðal erlendra ferðamanna í miðbænum en draumurinn varði ekki lengi því þau misstu húsnæðið snemma á árinu 2011 því þar stóð til að opna hótel. Svavar Pétur og Berglind voru síður en svo verkefnalaus næstu tvö til þrjú árin því Skakkamanage starfaði áfram og fór í tónleikaferðir bæði um landsbyggðina hér heima í félagi við aðrar sveitir og svo til Þýskalands, Danmerkur og Póllands. Þá var Svavar Pétur einnig upptekinn við annars konar verkefni, hann vann áfram við hönnun en einnig við tónlistarhátíðirnar Partíþokuna og Innipúkann, hann aðstoðaði föður sinn Eystein Pétursson við útgáfu á sólóplötu hans Það er margt í mannheimi og haustið 2012 voru þau Berglind við kennslu vestur á Drangsnesi á Ströndum þar sem vinur þeirra og tónlistarmaðurinn Björn Kristjánsson (Borko) var kennari og um skeið skólastjóri grunnskólans.

Ein útgáfa hljómsveitarinnar Prins Póló

Prins Póló var töluvert virkur á þessum tíma, sveitin sem var æði misstór eftir tilefninu hverju sinni spilaði mikið á tónleikum og þar má m.a. nefna Rykkrokk-tónleikana við Fellahelli þar sem Prinsinn var á heimavelli og Svavar Pétur sendi frá sér nokkrar smáskífur í nafni hans, þeirra á meðal var smellurinn Tipp topp sem naut mikilla vinsælda um haustið 2012 en breiðskífan lét bíða eftir sér enda var hann með mörg járn í eldinum, þau Berglind voru komin á fullt í matvælaframleiðslu en þau hófu að framleiða svokallaðar bulsur sem þau fjármögnuðu m.a. í gegnum Karolina fund sem hafði þá nýverið verið sett á laggirnar, bulsurnar slógu rækilega í gegn og áttu sjálfsagt sinn þátt í að tefja útgáfu breiðskífunnar. Samhliða þessu hafði Svavar Pétur fengið það verkefni að vinna tónlistina fyrir kvikmyndina París norðursins.

Árið 2014 átti eftir að verða viðburðarríkt að öllu leyti hjá þeim Svavari Pétri og Berglindi. Um vorið höfðu þau fest kaup á jörðinni Karlsstöðum austur í Berufirði þar sem til stóð að hefja einhvers konar ferðaþjónustu- og menningartengdan búskap með matvælaframleiðslu og fleira en Svavar Pétur átti ættir að rekja austur og hafði verið í sveit sem krakki í nágrenninu. Um svipað leyti kom út plata með Skakkamanage sem bar titilinn Sounds of marrymaking, breiðskífan Sorrí með Prins Póló og tónlistin úr París norðursins, einnig eftir Prins Póló. Fyrr er nefnt lagið Tipp topp sem nú kom á breiðskífunni en lögin Fallegi smiðurinn, Bragðarefir og Hamstra sjarma urðu einnig vinsæl, síðarnefnda lagið átti t.a.m. eftir að koma út á smáskífu í Bandaríkjunum síðar. Hafi það ekki verið nóg þá sló titillagið úr París norðursins í gegn og var einn af stærstu smellum ársins, var m.a. valið lag ársins á Hlustendaverðlaunum 365. Sorrí var að margra mati plata ársins 2014 og hlaut hún reyndar þann titil í ársuppgjöri Fréttablaðsins og Fréttatímans og varð í öðru sæti í sambærilega uppgjöri Rásar 2. Hún var tilnefnd til norrænu tónlistarverðlaunanna og kjörin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum, og þar var Svavar Pétur einnig valinn lagahöfundur ársins. Austfirðingar voru ánægðir að fá svo framtaksamt fólk í landsfjórðunginn að héraðsfréttablaðið Austurland tilnefndi hann sem einn af Austfirðingum ársins 2014. Þá má nefna að Prins Póló hlaut tilnefningu á Edduverðlaununum fyrir bestu kvikmyndatónlistina (París norðursins)

Þá var einnig nóg að gera á Karlsstöðum þar sem þau hjónin fóru í heilmikla endurbætur og uppbyggingu á húsakosti jarðarinnar samhliða matvælaframleiðslunni þar sem ýmsar tilraunir voru gerðar, auk þess að standa fyrir menningartengdum viðburðum en fjöldi tónleika var haldinn á staðnum sem auðvitað hlaut nafnið Havarí – og þar var haldið áfram þar sem frá var horfið í Austurstrætinu fimm árum áður. Havaríið í Berufirðinum varð því héraðinu heilmikil lyftistöng í menningarlegu samhengi, þau hjónin komu svæðinu sannarlega á kortið því þarna var boðið upp á gistingu, menningartengda starfsemi í formi tón- og myndlistar auk þess sem kaffihús með heimagerðum afurðum voru í boði. Tónleikahald var töluvert á Karlsstöðum og þangað komu margar af vinsælustu hljómsveitum og tónlistafólki landsins eins og Moses Hightower, FM Belfast, Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar, KK, Lay Low, Lára Rúnars o.fl. Þá er vert að geta þess að þau tóku einnig drjúgan þátt í samfélaginu í sveitinni, Berglind var um tíma í sveitarstjórn og Svavar Pétur lét m.a. að sér kveða fyrir bættum samgöngum í hreppnum þegar hann ásamt fleirum stóð fyrir fjölmennum mótmælum til að ýta undir að vegakafli í Berufirðinum yrði lagfærður.

Prins Póló

Þótt ótrúlegt megi virðast gafst Svavari Pétri tími að sinna Prins Póló verkefnum áfram þrátt fyrir annir heima fyrir og hann spilaði víða um land, bæði á heimavellinum í Havaríi og á Hammond hátíðinni á Djúpavogi en einnig á Bræðslunni í Borgarfirði eystra og svo auðvitað á höfuðborgarsvæðinu, sveitin fór jafnvel í stutta ferð til Englands og lék þar. Prinsinn hélt áfram að senda frá sér smáskífur árið 2016 og þar sló Læda slæda í gegn en einnig má nefna að fyrir jólin kom út jólalag á vegum Prins Póló og hljómsveitarinnar Gosa sem þeir gáfu UNICEF.

Næsta breiðskífa leit ekki dagsins ljós fyrr en vorið 2018 en þar var á ferðinni platan Þriðja kryddið, fyrrnefnt Læda slæda var á þeirri plötu sem hlaut eins og fyrri plöturnar góða dóma en þar voru einnig lög eins og Líf ertu að grínast og Er of seint að fá sér kaffi núna sem nutu mikilla vinsælda, báðir þessir lagatitlar komu svo út á veggspjöldum ásamt fleiri slíkum sem Svavar Pétur gaf út og seldi vel af. Prins Póló fylgdi plötuútgáfunni töluvert eftir með tónleikahaldi víða um land á sama tíma og reksturinn á Havarí var kominn á fullt skrið en þau höfðu m.a. hlotið norrænan menningarstyrk út á tónleikahald og unnið til verðlauna fyrir snakk unnið úr byggi þannig að allt gekk eins vel og það gat gert. En þá kom reiðarslagið í lok ársins 2018, Svavar Pétur greindist með ólæknandi krabbamein á fjórða stigi.

Þrátt fyrir þetta áfall héldu þau Svavar Pétur og Berglind sínu striki og var ekki að finna á þeim neinn bilbug opinberlega, Havarí blómstraði áfram og Prins Póló vann tónlist sem aldrei fyrr en hann hlaut tilnefningar bæði sem laga- og textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum – og vann þau síðarnefndu.

Prinsinn hélt árið 2019 upp á tíu ára afmæli sitt og í tilefni af því kom út eins konar afmælisrit eða bók sem bar heitið Falskar minningar og hafði að geyma úrklippur af fréttum, greinum og viðtölum við Prins Póló, texta, myndir og ýmislegt sem tengdist sögu hans. Þá fylgdi einnig safnplata með vinsælum lögum hans í nýjum útgáfum – „skástu lögum Prinsins í hátíðarútgáfum“, útsettum af Benna Hemm Hemm. Þá kom einnig út fjögurra laga plata, Havarí ábreiður, vol. 1 þar sem Prinsinn flutti þekkt lög eftir aðra, þeirra á meðal Silfurskottu Emmsjé Gauta og Yfirgefinn með hljómsveitinni Valdimar. Og fleiri slíkar óvenjulegar plötur komu út með Prins Póló þetta sama ár, Túrbó hét plata sem hafði að geyma sautján lög úr safni Prinsins sem höfðu verið hljóðritaðar „live“ – ekki þó á tónleikum. Og tvær plötur komu út til viðbótar, sex laga jólaplatan Falskar jólaminningar og smáskífan Ekki nokkuð sem Prinsinn vann með hljómsveitinni FM Belfast. Sjálfsagt má rekja þessi miklu afköst til veikinda Svavars Péturs, hann hafi ákveðið að sökkva sér í vinnu í stað þess að leggjast í kör. Eitthvað var þó minna um tónleikahald en árin á undan.

Þegar veikindi Svavars Péturs ágerðust opnaði hann sig um þau opinberlega og tjáði sig á hispurslausan hátt í fjölmiðlum. Eftir því sem honum smám saman hrakaði varð erfiðara fyrir þau hjónin að sinna öllum verkefnum í Berufirðinum og voru þau nokkuð fyrir sunnan, hann tók þó áfram þátt í samfélaginu fyrir austan, hafði verið á lista vinstri grænna fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar 2020 og fyrir alþingiskosningarnar 2021, þar var hann titlaður menningarbóndi. Þó kom að því að þau hjónin seldu Karlsstaða-jörðina sumarið 2021 enda reyndist þeim örðugt að halda úti starfseminni þar vegna veikinda Svavars Péturs, um það leyti kláraði hann nám í ljósmyndun en hann hafði lengi haft áhuga á þeirri grein.

Hann vann þó sem fyrr í mynd- og tónlistinni og hver smáskífan á fætur annarri leit dagsins ljós með Prins Póló, oft þó í samstarfi við aðra s.s. Memfismafíuna, K.Óla, Hjálma og Moses Hightower en Prinsinn fór í tónleikaferð með síðast töldu sveitinni um sumarið 2022, á þeim skífum var mikið unnið með hversdagsleikann eins og reyndar svo oft í textunum hjá Svavari Pétri, Vetrarfrí og Grillið inn eru t.d. mjög lýsandi titlar. Og ný sex laga skífa kom einnig út árið 2022 og bar titil sem litaði sjálfsagt líf Svavars Péturs á þeim tíma – Hvernig ertu? Þannig vann hann með húmorinn þrátt fyrir að vera orðinn helsjúkur um það leyti en ljós- og myndlistasýning sem hann hélt í Gerðubergi í Breiðholti um sumarið bar einmitt þessa sömu yfirskrift og var í raun leið til að loka rammanum hvað staðsetninguna varðar því Svavar Pétur var einmitt uppalinn í því hverfi.

Prins Póló á Airwaves 2014

Síðasta verkefni Svavars Péturs í þessu jarðlífi var sjö tommu smáskífa unnin í samstarfi við Dr. Gunna og hljómsveitina S.h. draum sem kom saman af því tilefni, um það leyti sem skífan kom út í lok september lagði meinið hann að velli aðeins fjörutíu og fimm ára gamlan, og eðlilega var ekki mikið húllumhæ í tengslum við þá útgáfu.

Árið 2021 höfðu þeir Svavar Pétur og Björn (Borko) Kristjánsson farið af stað með gamla hugmynd þeirra Svavars Péturs og Berglindar, þ.e. að koma með það sem þeir kölluðu „haustpeysulag“. Borko hafði riðið á vaðið haustið 2021 og sent frá sér lagið Haustpeysa (cover af Autumn sweater með Yo La Tengo frá 1997) og í kjölfarið fór af stað framleiðsla á haustpeysum Prins Póló. Svavar Pétur hafði átt næsta leik með haustpeysulag og hafði unnið það með Valdimar Guðmundssyni og Hirðinni en auðnaðist ekki að koma því út áður en hann lést en það kom út nokkrum vikum eftir andlát hans, og naut töluverðra vinsælda og spilunar veturinn 2022-23. Þess má geta að ágóði af sölu haustpeysanna rennur annars vegar til Krafts – styrktarfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og hins vegar í minningarsjóð Prins Póló. Tímaritið Grapevine útnefndi Prins Póló sem listamann ársins (Artist of the year) 2022 í upphafi árs 2023 og litlu síðar leyti var gert opinbert að hann hefði hlotið tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrir plötuna Hvernig ertu? og tónlistarviðburð ársins (ásamt Moses Hightower í Gamla bíói).

Svavar Pétur var afsprengi krútttónlistarinnar sem hann tilheyrði klárlega en gerði síðar sitt besta til að „drepa krúttið“ eins og hann orðaði það sjálfur í gríni, sjálfur taldist hann þó tæplega til krúttanna því þrátt fyrir oft á tíðum naívíska tónlistarlega nálgun voru hversdagslegir textarnir líklega of húmorískir fyrir þá skilgreiningu. Eftir Svavar Pétur liggja tugir smáskífna og breiðskífna í nafni Prinsins, Skakkamanage, Létt á bárunni, Rúnk og Múldýrsins og óhætt er að segja að minnisvarðarnir liggi enn víðar í framleiðslu á veggspjöldum, haustpeysum og öðrum margvíslegum varningi í nafni Prins Póló en Havarí er enn starfandi á höfuðborgarsvæðinu með vefverslun og verslun í Álfheimum.

Efni á plötum