Blúshátíð í Reykjavík 2015: blúsdjamm – blúsvagn – blúsgetraun

Blúshátíð í Reykjavík 2015Blúshátíð í Reykjavík 2015 hefst í dag með pompi og prakt en þá verða ýmsar uppákomur í miðbænum tengdar hátíðinni.

Fyrst ber að nefna Blúsdjamm þar sem valinkunni eðalblúsarar hita upp fyrir blúshátíðina á Bókatorginu við aðalinngang Borgarbókasafnsins í Grófinni klukkan 16, aðgangur er ókeypis.

Blúsvagn hefur ennfremur verið ræstur í Borgarbókasafninu og mun hann ganga til enda hátíðarinnar, hann er stútfullur af endurnærandi eldsneyti eins og segir í fréttatilkynningu en þar verður að finna ógrynni af blústengdu efni, blúsdiska með tónlist og myndum, bækur um blús og blússögu, ævisögur blúsara og kennslubækur í blúsgítarleik svo fátt eitt sé nefnt.

Getraun tengd Blúshátíð í Reykjavík 2015 hefur verið sett í gang og er svohljóðandi:

Blúshátíðin í ár er helguð hundrað ára fæðingarafmæli eðalblúsaranna Muddy Waters og Willie Dixon. Eitt af höfuðeinkennunum á rafmögnuðum borgarblús þeirra félaga og margrómaðs bands Muddys um miðja 20. öldina var ögrandi, tilfinningaríkur og á tíðum trylltur leikur ofurfærra, misbreyskra munnhörpusnillinga. Svo vildi til að á seinni hluta árs 1952 og fram eftir ári 1953  tóku við í bandinu hver á fætur öðrum þrír af færustu og frægustu munnhörpuleikurum blússögunnar.  Nefnið einn þeirra.

Svar má senda í tölvupósti til Sigurðar J. Vigfússonar (sigurdurvigfusson@reykjavik.is) eða skila í sérstakan blúskassa í Borgarbókasafninu í Grófinni, í síðasta lagi kl. 15:55 í dag, laugardag. Munið að merkja svarið með nafni og athugið að einungis þeir sem eru á staðnum hafa möguleika á að vinna. Í verðlaun er blúsmiði fyrir tvo á Blúshátíð Reykjavíkur 2015. Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar í heild sinni.

Einnig verða ýmsar blúsuppákomur á Skólavörðustígnum í dag á milli klukkan 14 og 17.