Drengjakór Reykjavíkur [1] (1935-39)

Drengjakór Reykjavíkur[1]

Drengjakór Reykjavíkur ásamt stjórnanda sínum Jóni Ísleifssyni

Drengjakór Reykjavíkur (hinn fyrri) var einn fyrsti drengjakór sem starfaði hérlendis, líklega sá fyrsti fyrir utan drengjakórinn Vonina sem starfaði um aldamótin 1900.

Jón Ísleifsson söngkennari við Miðbæjarskólann hafði haustið 1935 æft saman nokkra árganga drengja á aldrinum 11-15 ára sem sungu m.a. við guðsþjónustur, í janúar 1936 var kórinn hins vegar formlega stofnaður og hlaut þá nafnið Drengjakór Reykjavíkur.

Eftir það hélt kórinn nokkrum sinnum opinbera tónleika og söng auk þess margsinnis í útvarpinu, hann hlaut yfirleitt góðar viðtökur og til stóð jafnvel að hann færi erlendis en úr því varð þó ekki, kórinn samanstóð af um fjörutíu drengjum þegar mest var.

Drengjakór Reykjavíkur mun hafa starfað til ársins 1939 en hætt þá störfum.

Nokkrir síðar þjóðþekktir einstaklingar sungu með kórnum og voru þar á meðal þrír sem síðar störfuðu sem tónlistarmenni, Björn R. Einarsson, Einar B. Waage og Haukur Morthens, en meðal annarra má nefna Guðna Guðmundsson, síðar rektor við Menntaskólann í Reykjavík. Margir kórdrengjanna áttu eftir að syngja með karlakórum síðar á lífsleiðinni.

Hópurinn hittist að minnsta kosti tvívegis þegar þeir voru komnir á fullorðins aldur, 1966 og 70 og tóku þeir þá að sjálfsögðu lagið saman þótt ekki syngju þeir opinberlega þá.