Karlakór Mývatnssveitar [2] (1921-72)

Karlakór Mývatnssveitar 1948

Karlakór Mývatnssveitar 1948

Karlakór Mývatnssveitar (oft einnig kallaður Karlakór Mývetninga) starfaði í ríflega hálfa öld fyrir norðan en sami stjórnandi kórsins stýrði honum í þrjátíu og sex ár.

Það var Jónas Helgason hreppstjóri frá Grænavatni í Mývatnssveit sem má segja að hafi verið aðalsprauta kórsins allt frá stofnun en hann var aðalhvatamaður að því að kórinn var yfir höfuð stofnaður, stjórnaði honum frá því í nóvember 1921 frá stofnun og allt til ársins 1957. Það má því segja að Jónas hafi verið mikilvægur hlekkur í öllu sönglífi Mývetninga.

Karlakór Mývatnssveitar var aðili að Heklu, sambandi norðlenskra karlakóra allt frá stofnun 1934, og tók iðulega þátt í þeim mótum sem sambandið stóð að.

Kórinn innihélt yfirleitt um tuttugu til þrjátíu söngmenn og fór fremur fjölgandi, hann kom oft fram á tónleikum í heimabyggð og reyndar víðar norðanlands, m.a. við konungsheimsókn og á fjörutíu ára afmæli kórsins hafði hann æft og flutt yfir þrjú hundruð lög af ýmsu tagi.

Haustið 1957 tók sr. Örn Friðriksson við stjórn kórsins og stýrði honum allt til 1972 þegar hann var lagður niður, að undanskildu einu ári sem Þráinn Þórisson var við stjórnvölinn.

Tvö lög með Karlakór Mývatnssveitar komu út á safnplötunni Raddir að norðan, sem gefin var út í tilefni af þrjátíu ára afmælis Heklu, sambands norðlenskra karlakóra, Fálkinn gaf plötuna út 1965.