
Jóhanna Daníelsdóttir
Jóhanna Daníelsdóttir var með fremstu dægurlagasöngkonum þjóðarinnar um miðja síðustu öld en söngferill hennar var þó tiltölulega stuttur.
Jóhanna (f. 1925) var fædd og uppalin í Reykjavík og bjó þar alla sína ævi. Hún byrjaði að syngja með hljómsveitum 1948 en þá um sumarið söng hún með Hljómsveit Jan Morávek í tívolíinu í Vatnsmýrinni. Í framhaldinu söng hún með hljómsveitum Eyþórs Þorlákssonar, Björns R. Einarssonar og Karls Jónatanssonar á næstu árum.
Ferill Jóhönnu var stuttur, hún virðist ekki hafa verið viðloðandi söng eftir 1950, að minnsta kosti ekki opinberlega. Hún varð í öðru sæti yfir vinsælustu söngkonur landsins í kosningu sem Jazzblaðið stóð fyrir.
Jóhanna hafði hæfileika á fleiri sviðum lista en hún þótti drátthög og málaði einnig, hún hélt m.a. sýningar á verkum sínum komin á efri ár.
Jóhanna Daníelsdóttir lést 2005, þá áttræð.














































