Jón Friðfinnsson (1865-1936)

Jón Friðfinnsson

Jón Friðfinnsson

Jón Friðfinnsson alþýðutónskáld bjó mest alla ævina í Kanada og kann það að valda því að nafn hann er minna þekkt hér á landi en ella.

Jón fæddist 1865 í Breiðdal í Suður-Múlasýslu en var ellefu ára þegar fjölskylda hans fluttist vestur um haf til Kanada í leit að betra lífi eins og svo margir Íslendingar á átjándu og nítjándu öld gerðu. Foreldrar hans gerðust bændur við Íslendingafljót og þegar hann var um tvítugt fluttist hann til Argyle sýslu og síðar til Winnipeg 1905 þar sem hann bjó eftirleiðis.

Jón starfaði alltaf sem bóndi og hlaut ekki formlega menntun, hvorki almenna né í tónlistinni en naut þó einhverrar tilsagnar í hljóm- og tónfræði. Hann hafði eignast lítið orgel sem hann nýtti allan sinn frítíma til að æfa sig á og hefur það sjálfsagt orðið undirstaða fyrir tónskáldið í honum en einnig nam hann fiðluleik, mestmegnis af sjálfum sér. Það má því með sanni segja að hann hafi verið alþýðumaður í tónlistarsköpun sinni en uppistaðan á tónskáldaferli hans voru söng- og vísnalög, um sextíu talsins sem gefin voru út á nótnaformi. Jón Friðfinnsson var ennfremur organisti og kórstjórnandi kirkjunnar í Argyle.

Á seinni árum hafði Jón þróað sig yfir í flóknari verk fyrir strengjasveitir og stærri hljómsveitir, m.a. það sem kallað var Strengleikur fyrir fjögur hljóðfæri og einnig Alþingiskantötu sem hann samdi við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi fyrir samkeppni sem haldin var í tilefni af þúsund ára alþingishátíðarinnar 1930.

Ekki vann Alþingiskantata Jóns til neinna verðlauna en vorið 1936 var hún flutt tvívegis opinberlega af karlakór Íslendinga og Samkór Íslendinga í Winnipeg líklega undir stjórn Ragnars H. Ragnar og Björgvins Guðmundssonar tónskálds. Jón hafði þá verið sjúkur um nokkurra ára skeið og var í raun mjög veikur þegar hann var viðstaddur flutninginn. Hann dó fáeinum mánuður síðar, í árslok 1936.

Meðal sönglaga sem Jón samdi má nefna Þótt þú langförull legðir (við ljóð Stephans G. Stephensen), Vor (við ljóð Jóhanns Sigurjónssonar) og Vormenn (við ljóð Guðmundar Guðmundssonar).