Ný plata frá Dölla

Dölli - Ó hve unaðslegt það var þetta...Nú í byrjun mánaðarins sendi tónlistarmaðurinn Dölli frá sér plötu með hinn stórkostlega titil Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum, en þar er vísað í eitt laga plötunnar.

Dölli, sem heitir reyndar Sölvi Jónsson og er fæddur 1975, gaf plötuna upphaflega út í aðeins tíu eintaka upplagi (númeruðum og árituðum) en hefur nú látið gera tuttugu í viðbót þar sem upprunalega upplagið seldist upp.

Ó hve unaðslegt… hefur að geyma fimmtán lög eftir Dölla, sem hann syngur og leikur undir á gítar, en þau voru samin og tekin upp á um mánaðar tímabili síðastliðið haust í Döllveri. Hægt er að kaupa Ó hve unaðslegt… beint af Dölla í gegnum Facebook-síðu hans.

Margir muna eftir barnaplötu Dölla, Viltu vera memm? sem kom út fyrir síðustu jól og vakti töluverða athygli, einkum lagið Pabbi minn en hér má sjá myndbandið við það lag. Sú plata, sem Dölli vann mikið til með gítarleikaranum Kristni Árnsyni fékk góðar umsagnir hjá Dr. Gunna og Jóni Ólafssyni auk þess að fá umfjöllun í þáttum Andreu Jónsdóttur og Heiðu Eiríksdóttur á Rás 2 en seldist fremur lítið. Viltu vera memm? er hægt að nálgast í öllum betri plötubúðum bæjarins.

Dölli kemur til með að fylgja eftir útgáfu Ó hve unaðslegt… með spilamennsku en þess má geta að hann vinnur nú að efni sem hann ráðgerir að senda frá sér í sumar.