Bóluhjálmar (1969-70)

Hljómsveitin Bóluhjálmar vakti nokkra athygli í þá mánuði sem sveitin starfaði á árunum 1960 og 70, aðallega þó fyrir nafngiftina en nafnið varð tilefni skrifa í lesendadálk Morgunblaðsins þar sem það var harðlega gagnrýnt og voru mörg ljót látin þar falla s.s. „öskurapa-hljómsveit“ og „fávitar“. Reyndar gekk það svo langt að einn meðlimur sveitarinnar sá sig knúinn til að svara gagnrýninni í blaðinu og benda á að um væri að ræða fleirtöluorð sem þýddi einfaldlega bólóttir hjálmar en væri ekki skírskotun til þjóðskáldsins Bólu-Hjálmars eins og bréfritarar vildu meina.

Bóluhjálmar voru frá Keflavík eins og margar sveitir á þessum tíma og kom fyrst fram opinberlega á styrktartónleikum í Keflavík. Ekki liggur alveg fyrir hverjir voru í sveitinni og á hvaða tíma en þeir Sigurður Björgvinsson bassaleikari, Oddur Garðarsson gítarleikari, Hrólfur Gunnarsson trommuleikari og Magnús Daðason söngvari voru að minnsta kosti meðlimir hennar. Ingvi Steinn Sigtryggsson mun einnig hafa verið í henni í lokin og Finnbogi Kjartansson gæti hafa komið við sögu hennar líka.

Bóluhjálmar hættu störfum líklega á miðju ári 1970 þegar sveitin sameinaðist hljómsveitinni Júdas og úr varð ný sveit úr upphafsstöfum sveitanna beggja, Júbó.