Hljómsveit Hafliða Jónssonar (1946-52)

Hljómsveit Hafliða Jónssonar virðist hafa verið starfrækt með hléum á árunum 1946 til 1952 en upplýsingar um þessa sveit eru af skornum skammti.

Árið 1946 starfaði sveitin að mestu í Breiðfirðingabúð og með Hafliða (sem var píanóleikari) voru þeir Kristján Kristjánsson (KK) saxófón- og klarinettuleikari og Svavar Gests trommuleikari. Sveit var einnig starfandi í nafni Hafliða árin 1948 og 49 en ekki finnast neinar upplýsingar um meðlimi hennar þá, hins vegar þegar hann var með hljómsveit í Þórscafe árið 1951 voru þeir Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari, Ragnar Bjarnason trommuleikari og Guðmundur Hansson harmonikkuleikari með honum.

Hafliði var einnig með hljómsveit árið 1952 en ekki liggur fyrir hverjir spiluðu þá með honum, hins vegar er vitað að Björn R. Einarsson básúnu- og harmonikkuleikari lék einhvern tímann með sveit hans ekki þó ekki hvenær.