Stonehenge (1995-97)

Stonehenge

Hljómsveitin Stonehenge var frá Akureyri og starfaði um tveggja ára skeið um miðjan tíunda áratug síðustu aldar undir því nafni áður en því var breytt í Shiva. Sveitin gekk einnig um tíma undir nöfnunum Minefield og Hate en Stonehenge varð alltaf aftur ofan á.

Stonehenge var thrashmetal-sveit stofnuð haustið 1995 og voru meðlimir hennar í upphafi  Viðar Sigmundsson gítarleikari, Hlynur Örn Zophoníasson söngvari og gítarleikari, Kristján B. Heiðarsson trommuleikari og Bergvin F. Gunnarsson bassaleikari. Þannig var sveitin skipuð þegar hún keppti í Músíktilraunum vorið 1996 þar sem hún komst í úrslit og hafnaði þar í fjórða eða fimmta sæti.

Aðalsteinn M. Björnsson tók fljótlega við bassanum af Bergvini og Hörður Halldórsson svo af Aðalsteini en sveitin starfaði ekki lengi eftir það, þá var nafni hennar breytt í Shiva og vakti hún nokkra athygli undir því nafni en tónlistin hafði þá breyst töluvert mikið.