Óvæntar troðnar slóðir

Sindri Eldon – Bitter & resentful
Smekkleysa SM169CD, 2014

4,5 stjarna

Sindri Eldon - Bitter & resentful

Sindri Eldon – Bitter & resentful

Sindri Eldon hefur goldið þess frá fæðingu að vera sonur foreldra sinna, hann hefur þó alltaf farið sínar eigin leiðir í tónlistarsköpun sinni, verið í hljómsveitum á borð við Dáðadrengi, Dynamo fog, Slugs og Desidiu sem flestar hafa sent frá sér efni, jafnvel plötur, nú síðast hefur hann starfrækt hljómsveitin Sindri Eldon & the Ways og hún leikur einmitt á fyrstu sólóplötu kappans, Bitter & resentful sem kom út fyrir nokkru. Sindri sagði í nýlegu blaðaviðtali að það hentaði sér prýðilega að hafa hljómsveitina sína á sólóplötunni því þó að ákveðið lýðræði þyrfti að vera í hljómsveit þá væri þetta hans sólóverkefni og hann réði öllu. Og það er ekki annað að heyra en að það fyrirkomulag henti vel því platan er gríðarlega vel heppnuð.

Allt frá fyrstu sekúndu fer ekkert á milli mála að spilagleðin er gjörsamlega að drepa menn og keyrslan er alger frá upphafi til enda í öllum lögunum þrettán sem Bitter & resentful hefur upp á að bjóða. Hvergi er rólegan punkt að heyra í þessu reyndar ófrumlega en hressilega melódíska poppaða rokki í anda amerísks háskólarokks sem hefur nú held ég að mestu liðið undir lok. Og platan er öll jafngóð, öll lögin skora hátt yfir meðallag þrátt fyrir að vera bæði fyrirsjáanleg og límd á heilann frá fyrstu hlustun, þessum heila klukkutíma af tónlist er vel varið. Grípandi lög sem maður fær strax á heilann eiga á hættu að birtast fljótlega á lista yfir þau lög sem maður þolir ekki en það virkar ekki þannig hér og það er gæðamerki. Sindri hefur líka lag á að brjóta upp lögin þannig að erindin hljóma aldrei eins heldur eru brotin upp með stoppi, röddun eða taktbreytingum. Þrátt fyrir að platan sé jöfn að gæðum langar mig samt að nefna lagið 18 sérstaklega þó ekki nema væri vegna textans sem byggður er á símsvara símafyrirtækis.

Bitter & resentful sándar fáránlega skemmtilega en um leið er hún nógu hrá til að maður hefur á tilfinningunni að hún sé tekin upp læv, ég er þó ekki viss um að svo sé og náði jafnvel að telja sjálfum mér trú um að örfáar feilnótur í söng og gítar væru af ásettu ráði negldar niður hér og þar í tónlistinni á plötunni.

Ég vissi ekki fyrirfram við hverju ég ætti að búast af Sindra Eldon, ég man eftir ungæðislegum Dáðadrengjunum fyrir löngu en hafði þó fyrir löngu ímyndað mér að sólótónlist hans síðar hljómaði allt öðruvísi, yrði einhvern veginn í ætt við raftónlist, tilraunakenndari, tormeltari, jafnvel ómstríð og hann færi ótroðnar slóðir líkt og já… – svona geta fordómarnir komið í bakið á manni. Þessi plata er í öllu falli allt öðruvísi en ég átti von á og ekki er hægt að segja annað en að það er lengi hægt að koma manni skemmtilega á óvart.