Einkar áheyrilegt

Kiasmos – Kiasmos
Erased tapes records ERATP062CD, 2014

5 stjörnur

Kiasmos - Kiasmos

Kiasmos – Kiasmos

Kiasmos er samstarfsverkefni Ólafs Arnalds og Færeyingsins Janus Rasmussen en þeir hafa unnið saman síðan 2007 og skapað eins konar instrumental rafteknó. Ólafur er flestum orðinn kunnur í dag en hann hefur gefið út nokkrar sólóplötur með tónlist sem hefur verið skilgreind sem nýklassík en framan af ferli sínum var hann trommuleikari í hljómsveitum sem spiluðu öllu þyngri tónlist, s.s. Mannamúl, Celestine, Fighting shit og I adapt. Janus hefur hins vegar verið trommuleikari í hljómsveitinni Bloodgroup frá Egilsstöðum um árabil og hljómsveitinni Furu sem er reyndar náskyld Bloodgroup. Þeir Kiasmos félagar hafa svosem ekki farið hátt en þeir unnu fyrir tveimur árum lítillega með Friðriki Dór á plötunni Vélrænn og um svipað leyti sendu þeir frá sér smáskífuna Thrown sem eins konar forsmekk fyrir breiðskífuna sem nú er loks komin út.

Platan virkar strax á mann við fyrstu hlustun og heldur manni við efnið, tvö fyrstu lögin (Lit og Held) byggja á keimlíkum stefjum sem hljóma svolítið eins og inngangur fyrir þriðja lagið (Looped) sem byrjar nánast eins og jarðarfararstef en umbreytist í eitthvað stærra og áheyrilegra í danstónlistarlegum skilningi. Tónlistin er einföld, keyrt er á endurteknum stefjum, skreytt með píanó og strengjum sem hefur verið aðall Ólafs en keyrt áfram á taktinum, en það er hljóðheimurinn sem er kannski mikilvægastur í tónlistinni, eða hvernig lögin rísa og hníga samhliða sándlegum blæbrigðum fremur en af laglínu eða hljómagangi, enda eru laglínurnar stundum örfáar nótur teygðar út í það óendalega með endurtekningunni. Og svo byrjar veislan fyrir alvöru sem í framhaldinu stigmagnast smám saman og rís í lögunum Swayed, Thrown (smáskífan sem minnst var á hér að ofan), Dragged og Bent, sem oftar en ekki eru samtengd þannig að þau mynda eina heild. Og Bent er ekkert minna en frábært lag að mínu mati, flott upp byggt sem rís og stækkar úr dempuðum taktgangi þar til það nær hæstu hæðum, opnast og springur út ekki ólíkt GusGus-laginu Selfoss sem margir muna eftir af Arabian horse. Besta lag plötunnar og klárlega eitt af flottustu lögum ársins að mínu mati.

Þeir Kiasmos-liðar loka síðan skífunni á Burnt, lengsta lagi plötunnar sem keyrir hlustandann smám saman niður í rólegheit og fjarar við hæfi út í strengjum og píanói. Og maður er fullkomlega sáttur við þau málalok því þá áttar maður sig á hversu mikið strengirnir og píanóið gera fyrir tónlistina, og píanóið sérstaklega sem er einmitt svo einkennandi fyrir tónlist Ólafs.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þess konar tónlist er ekki allra, engin melódía, enginn söngur, engin erindi, engin viðlög og enginn texti sem eru yfirleitt þau atriði sem er mælikvarði fólks á tónlist, þarna er aftur á móti keyrt áfram á endurtekningunni, taktinum og hljóðheimi sem er samur en þó síbreytilegur um leið. Ég mæli því með þessari plötu, og líka fyrir þá sem hlusta bara á „venjulega“ tónlist – nú er tækifærið.