Annað hljóð í strokkinn [tónlistarviðburður] (1981)

Tónlistarhátíðin Annað hljóð í strokkinn var haldin sumarið 1981. Fjölmargar íslenskar nýbylgju- og pönksveitir komu fram á tónleikunum sem haldnir voru í Laugardalshöllinni, þar má nefna Box, Taugadeildina, Tappa tíkarrass, Þey, Baraflokkinn, Exodus og gjörningasveitina Bruna BB en síðast nefnda sveitin stal í raun senunni með uppákomu sem varð að miklum fjölmiðlasirkusi.

Þeir hugðust kveikja í einum meðlimi sveitarinnar en fengu það ekki og þegar lögreglan skarst í leikinn brutu þeir rúður og slettu málningu á veggi Laugardalshallarinnar. Þeir réðust að því loknu upp á svið með vélsög og voru í kjölfarið handteknir og stungið í steininn.

Það voru útgáfufyrirtækið Eskvimó með Guðna Rúnar Agnarsson í broddi fylkingar, og verslunin Stereo sem stóðu fyrir hátíðinni en hún var haldin aðeins í þetta eina skipti.