Alli og Heiða (1982-86)

engin mynd tiltækAlli og Heiða, aukasjálf leikaranna Aðalsteins Bergdal og Ragnheiðar Steindórsdóttur komu fram á sjónarsviðið 1982 þegar Ísafoldarprentsmiða gaf út sína fyrstu og einu plötu en á henni var að finna tuttugu og fimm barnalög, aukinheldur fylgdi eins konar litabók með myndum Ólafar Knudsen af aðalpersónunum.

Lögin voru eftir Asger Pedersen en hann ku hafa samið þau fyrir barnatíma danska ríkissjónvarpsins og þau munu hafa notið vinsælda þar. Óskar Ingimarsson sá um að íslenska textana en þau Aðalsteinn og Ragnheiður léðu Alla og Heiðu raddir sínar sem fyrr segir.

Lagið Kannast þú við horn? varð nokkuð vinsælt í útvarpi og í kjölfarið komu þau Alli og Heiða fram á barnaskemmtunum eitthvað fram á haustið 1982 og sungu lögin en síðast heyrðist lítið af þeim, þau komu þó eitthvað fram fjórum árum síðar.

Löngu síðar (1997) komu lögin á plötunni aftur fram á sjónarsviðið þegar Aðalsteinn skrifaði leikritið Hugsanablaðran utan um þau, setti upp og leikstýrði norðan heiða. Ekkert liggur fyrir um viðbrögð við þeirri sýningu.

Efni á plötum