
Grýlurnar
Grýlurnar eru án efa þekktasta kvennasveit íslenskrar tónlistarsögu, þar kemur helst til frumkvæði þeirra sem slíkrar sveitar svo og framlag hennar í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Sveitin varð ekki langlíf, ríflega tveggja ára gömul en lifir enn ágætu lífi í minningunni.
Ragnhildur Gísladóttir hafði frumkvæðið að stofnun sveitarinnar snemma árs 1981 en hún hafði þá verið um tíma í hljómsveitinni Brimkló og vakið athygli með Brunaliðinu og fleiri flytjendum.
Þar hafði hún þó einatt verið í hálfgerðu aukahlutverki og fannst hún ekki njóta þeirra virðingar og athygli sem hún ætti skilið. Hún fékk því til liðs við sig þær Ingu Rún Pálmadóttur gítarleikara, Lindu Björk Hreiðarsdóttur trommuleikara og Herdísi Hallvarðsdóttur bassaleikara og hófu þær fljótlega æfingar. Ragnhildur sem sjálf ætlaði að syngja og leika á hljómborð, var ein meðlima sem hafði einhverja sviðsreynslu. Sagan segir að þegar hún hafi auglýst eftir meðspilurum hafi um fimmtíu stúlkur á ýmsum aldri sóst eftir að komast í sveitina.
Nafn sveitarinnar átti sér vísun í orðanotkun Péturs Kristjánssonar sem kallaði stúlkur iðulega grýlur, og fannst þeim kjörið að gera það að sínu.
Ekki leið á löngu þar til sveitin kom fram á tónleikum SATT í Austurbæjarbíói en þar náði sveitin vægast sagt ekki að heilla áheyrendur að neinu marki, eða poppskríbenta dagblaðanna sem þótti lítið til sveitarinnar koma en nokkrar væntingar höfðu verið fyrir tónleikana enda Ragnhildur orðin þekkt fyrir. Litlu munaði að þessi frumraun sveitarinnar riði henni að fullu en Ragnhildur náði að stappa stálinu í hópinn og þær lögðu því enn harðara en áður að sér að æfa og vinna efni. Smám saman öðlaðist sveitin þá reynslu og virðingu sem þurfti með aukinni spilamennsku og samhliða því hljóðnuðu hæðnis- og gagnrýnisraddir sem upphaflega höfðu nær gert útaf við Grýlurnar.

Grýlurnar á sviði
Fljótlega var farið að vinna efni og um haustið voru tekin upp nokkur lög sem komu út á fjögurra laga plötu sem bar nafn sveitarinnar. Sú plata hefur réttilega verið nefnd fyrsta íslenska kvennarokkplatan. Tvö laganna voru frumsamin og þar var einnig að finna gamla Bob Dylan lagið Don‘t think twice í nýstárlegri útgáfu þeirra Grýlna en þetta lag hafði einmitt verið á prógrammi Brimklósins nokkru áður og höfðu þeir gert við það íslenskan texta (undir titlinum Hvað um það, sleppum því) og gefið út á plötu. Útgáfa Grýlnanna var þó öllu hrárri.
Platan, sem gefin var út hjá SPOR sem var nýtt útgáfufyrirtæki undir merkjum Steina, fékk ágætar viðtökur þegar hún kom út fyrir jólin 1981, hún hlaut t.a.m. mjög góða dóma í Þjóðviljanum, Tímanum, Morgunblaðinu og Helgarpóstinum, og þokkalega í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar en síðri í DV.
Í kjölfarið kom sveitin fram í hálftíma löngum þætti í Ríkissjónvarpinu og reyndar einnig í sænska og danska sjónvarpinu nokkru síðar. Á þeim vettvangi kölluðu þær sig Häxorna/Heksene. Platan var síðar einnig gefin út í Svíþjóð.
Næsta vor (1982) fór að kvisast út að sveitin kæmi fram í kvikmynd ásamt Stuðmönnum en einnig var þá í vinnslu heimildamynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík en þar átti sveitin einnig eftir að koma fram.
Eins og fyrr segir styrktu þær Grýlur sig smám saman í sessi og á Stjörnumessu vorið 1982 (ígildi Íslensku tónlistarverðlaunanna í dag) var Ragnhildur kjörin söngkona ársins, sveitin flutti einnig tónlist á þeirri hátíð.
Kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd um páskana og fluttu Grýlurnar eitt lag en einnig má þar heyra viðtal við sveitina. Almennt var gerður góður rómur að framlagi þeirra í myndinni.
Sumarið fór hins vegar að miklu leyti í tökur fyrir Stuðmannamyndina og spilaði sveitin nokkuð samhliða því á böllum og reyndar ásamt Stuðmönnum á stundum.
Þrátt fyrir miklar annir lék sveitin á Melarokktónleikunum síðsumar og þá var komin til sögunnar nýr gítarleikari, Bára Grímsdóttir og innihélt sveitin tvo gítarleikara um tíma áður en sveitin fór í pásu frá tónleikahaldi síðla sumars. Þá skildu leiðir Grýlna og Báru.

Grýlur (Gærur) og Stuðmenn
Grýlurnar höfðu ætlað sér að fara að vinna breiðskífu snemma árs en sökum verkefna hafði þeirri vinnu verið frestað, það varð því loks á haustmánuðum sem þær gátu einbeitt sér að því.
Tónlistin úr Stuðmannamyndinni, sem hafði hlotið titilinn Með allt á hreinu, kom út í desember og myndin sjálf var síðan frumsýnd um jólin. Í henni lék Ragnhildur annað aðalhlutverkið (á móti Agli Ólafssyni) og leiddu þau tvö tvær hljómsveitir, Stuðmenn og Gærurnar (Grýlurnar) sem öttu saman kappi á sveitaballamarkaðnum. Myndin og tónlistin sló strax í gegn og þótt lög Stuðmanna væru mun fyrirferðameiri í myndinni og á plötunni hlaut framlag Grýlnanna ekki síður athygli.
Sveitin flutti þrjú lög í myndinni og komu tvö þeirra út á plötunni, þriðja lagið í myndinni átti síðar eftir að koma út með öðrum texta á plötu Grýlnanna (sem þær voru þá að vinna að) undir nafninu Sísí og er það án efa þekktasta lag sveitarinnar og hefur fyrir löngu skapað sér sess sem poppklassík í hæsta gæðaflokki.
Grýlurnar héldu áfram að vinna plötuna sína en í uppgjöri tónlistarmanna eftir áramótin (Stjörnumessunni) áttu sveitirnar tvær, Grýlurnar og Stuðmenn eftir að koma mest við sögu, platan með tónlistinni úr myndinni var valin plata ársins, Ragnhildur söngkona ársins og Grýlurnar urðu síðan í öðru til þriðja sæti í flokknum besta hljómsveitin. Ragnhildur söng aukinheldur lag ársins en það var úr kvikmyndinni Okkar á milli og hafði notið mikilla vinsælda.
Platan kom síðan loks út um vorið 1983 og hlaut nafnið Mávastellið. Louis Austin annaðist upptökuþáttinn og stjórnaði upptökum ásamt Ragnhildi en þær fóru fram í Hljóðrita. Dóra Einarsdóttir hannaði umslag plötunnar sem þótti skemmtilega unnið. Efnið sömdu þær Grýlur allt sjálfar.
Mávastellið fékk mjög góðar viðtökur gagnrýnanda Morgunblaðsins en hann hafði gengið hvað harðast fram í gagnrýninni í upphafi. Hún fékk einnig ágæta dóma í Þjóðviljanum, Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar og tímaritinu Samúel en slaka í Helgarpóstinum. Platan seldist ennfremur ágætlega og hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum síðan, og þá ásamt fyrri plötunni. Lagaröð þeirra útgáfa er með öðrum hætti en upphaflegu útgáfunnar.
Hljómsveitin spilaði víða þetta sumar, einkum innanlands (hituðu meðal annars upp fyrir bresku sveitina Echo & the bunnymen) en einnig fóru þær stöllur aftur í tónleikaferðalag um Norðurlöndin og vöktu mikla lukku hvar sem þær fóru.
Álag vegna spilamennsku og utanaðkomandi aðstæðna var nokkuð farið að segja til sín og svo fór að lokum að Linda trommuleikari þurfti að fara í aðgerð á hné, einnig gifti Herdís bassaleikari sig um sumarið. Í framhaldinu má segja að sveitin hafi lognast smám saman útaf um haustið sem var synd því henni hafði þá boðist að spila í Frakklandi. Þá hafði sveitin starfað í ríflega tvö ár og sannarlega unnið sig upp frá botninum og hætt á toppnum.
Í kjölfarið fór Ragnhildur að vinna tónlist með Jakobi Stuðmanni Magnússyni þáverandi unnusta sínum, í Bone symphony og síðar með Stuðmönnum, Herdís vann einnig áfram í tónlist en lítið hefur spurst til þeirra Lindu Bjarkar og Ingu Rúnar, Bára Gríms hefur hins vegar skotið upp kollinum á allt öðrum tónlistarvettvangi.
Lagið Sísí komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina (Á stuttbuxum (1983), Hornsteinar (1992), Með lögum skal land byggja (1985), Óskalögin 6 (2001), Pottþétt hinsegin (2002), Stelpurokk (1997) og Tvær í takinu (1984), en aðrar sveitir hafa ennfremur tekið einhver laga þeirra upp á sína arma og flutt þau, jafnvel gefið út eins og hljómsveitin Elektra sem gaf áðurnefnt Sísí út en var lagið einnig lengi á prógrammi Stuðmanna en Ragnhildur gekk til liðs við þá nokkru eftir Grýluævintýrið. Ekkert mál (úr myndinni Með allt á hreinu) kom út í meðförum Á móti sól á plötu sem tileinkuð var myndinni en einnig kom lagið út á plötu Stuðmanna og karlakórsins Fóstbræðra, svo einhver dæmi séu tekin.
Framlag Grýlnanna vakti mikla athygli einkum fyrir að þetta var kvennasveit, ýmis litu menn á þetta á sínum tíma sem vopn í jafnréttis- og kvennabaráttunni og þá með aðdáun flestra, eða litu niður á þessa „stelpuræfla“ sem ekkert erindi ættu á hljóðfæri enda var tónlist í nánast hundrað prósentum tilfella sköpuð og flutt af karlmönnum og kvenfólk ætti ekki að skipta sér af henni. Í besta falli að þær fengju að syngja. Andrea Jónsdóttir poppfræðingur og þá blaðamaður á Þjóðviljanum var ötull stuðningur við sveitina og var henni efalaust nokkur styrkur í baráttunni við karlaveldið. Í kjölfar sveitarinnar komu fleiri kvennasveitir, nægir þar að nefna hinar austfirsku Dúkkulísur.