HLH flokkurinn [1] (1978-89)

HLH 1979

HLH flokkurinn og Ragga Gísla 1979

HLH-flokkurinn (stofnaður sumarið 1978) samanstóð af þeim bræðrum Halla og Ladda (Haraldi og Þórhalli Sigurðssonum), auk Björgvins (Helga) Halldórssonar en nafn flokksins var myndað úr upphafsstöfum þeirra félaga.

HLH var söngflokkur undir áhrifum frá sjötta áratug 20. aldarinnar og lengst af mun ekki hafa verið fastráðin hljómsveit með þeim þegar þeir komu fram opinberlega, heldur hinir og þessir tíndir til (m.a. hljómsveitirnar Brimkló og Sveitin milli sanda) eða undirleikurinn leikinn af bandi.

Hópurinn kom fyrst fram á böllum með hljómsveitinni Brimkló sumarið 1978 og flutti nokkur lög en birtist landi og þjóð fyrst þegar þeir fluttu nokkur lög í skemmtiþætti í Ríkissjónvarpinu snemma árs 1979. Í framhaldinu var gerð stuttmynd um þá félaga sem sýnd var sem aukamynd í Laugarásbíói á undan myndinni I wanna hold your hand um sumarið 1979 eða um svipað leyti og þeirra fyrsta plata var kynnt.

Platan kom út í marsmánuði sama ár og var tileinkuð sjötta áratugnum þótt lögin kæmu úr ýmsum áttum. Hún hlaut nafnið Í góðu lagi og fékk góðar viðtökur þótt menn hafi skipst í tvo hópa hvað það snerti, enda var þá íslenska pönkbylgjan að hefjast. Bubbi Morthens (þá ný rokkstjarna í íslensku tónlistarlífi og tilheyrði fyrrgreindri bylgju) sá þá ástæðu til að skjóta föstum skotum að poppurum landsins og einkum að Björgvini Halldórssyni, frægar eru textalínur hans með Utangarðsmönnum í laginu Rækju-reggae (Hahaha) frá árinu 1980 þar sem hann syngur „Ég er löggiltur öryrki, hlusta á HLH og Brimkló“, en Björgvin var einnig söngvari Brimklóar. Þarna var Bubbi að vísa til vinsældapopps almennt og þeirra sem hlustuðu á slíkt en sjálfsagt hefur þetta textabrot aðeins aukið hróður Björgvins sem söngvara eftir því sem tíminn leið. Jónas R. Jónsson annaðist upptökur á plötunni ásamt Gunnari Smára Helgasyni en Björgvin stjórnaði sjálfur upptökum.

Aðal smellur plötunnar, Riddari götunnar, sló strax í gegn en þar söng Ragnhildur Gísladóttir með Björgvini en fleiri lög plötunnar nutu vinsælda eins og Seðill, Nesti og nýja skó og Húla hopp. Lagið Lalala varð síðar notað í syrpu sem hljómsveitin Upplyfting gerði ódauðlega löngu síðar. Riddari götunnar er þó langlífasta lag plötunnar og var m.a. gefið út af Bifhjólasamtökum lýðveldisins (Sniglunum) á eins konar afmælisplötu samtakanna 1994.

Þrátt fyrir að Í góðu lagi seldist vel (hafði selst í um 8000 eintökum um mitt sumar 1979) fékk hún fremur slaka dóma fjölmiðla, gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf henni reyndar þokkalega dóma en kollegi hans á DV var ekki hrifinn, fremur en Jens Kr. Guðmundsson í bók sinni Poppbókinni.

HLH-flokkurinn keyrði hins vegar á fullt á böllunum um sumarið við undirleik Brimklóar (sem lék undir á plötunni) en öllu hafði verið tjaldað til við auglýsingar plötunnar. Um haustið fóru þeir félagar í pásu en komu líklega eitthvað fram við sérstök tilefni en að öðru leyti stóð pásan í á fimmta ár (til 1984) en þá vaknaði HLH-flokkurinn til lífsins svo um munaði, og hóf að vinna sína aðra plötu.

Fjölmargir komu að þeim upptökum, sem fram fóru í Hljóðrita í Hafnarfirði um vorið, en um útsetningar sáu Björgvin og Vilhjálmur Guðjónsson.
Platan hlaut titilinn Í rokkbuxum og strigaskóm og fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, t.a.m. góða dóma í Morgunblaðinu. Auk þess seldist platan vel.
Gömul sönghetja, Sigurður Johnny var dreginn fram í dagsljósið og var hann í gestahlutverki í laginu HLH á plötunni en það var í fyrsta skipti sem hann söng inn á plötu.

HLH flokkurinn 1984

HLH flokkurinn og Sigga Beinteins 1984

Annar slíkur gestur var á plötunni og sló heldur betur í gegn í laginu Vertu ekki að plata mig en það var Sigríður Beinteinsdóttir sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan með Stjórninni og víðar. Lagið varð gríðarlega vinsælt og er löngu orðið sígilt í íslenskri tónlistarsögu. Sigríður var þó ekki fullkomlega sátt við samstarfið við HLH-flokkinn og tjáði sig um það í blaðaviðtölum, reyndar eins og Ragnhildur Gísladóttir sem hafði sungið með Björgvini um Riddara götunnar – sú saga gekk reyndar fjöllunum hærra að kvikmynd Stuðmanna, Með allt á hreinu, fjallaði um samband HLH-flokksins og Ragnhildar, en það er önnur saga.

Áðurnefnd Sigríður átti þó aftur eftir að koma fram á jólaplötu HLH-flokksins sem kom út um haustið og hét Jól í góðu lagi. Sú plata varð mjög vinsæl og hefur selst jafnt og þétt síðan. Á þeirri plötu voru gamlir erlendir jólaslagarar dregnir fram í dagsljósið og rokkaðir upp í þann fiftís anda sem einkenndi tónlist HLH, þar má nefna Rokkað í kringum jólatréð, auk jólasyrpu sem var mikið spiluð í útvarpi fyrir jólin, að ógleymdu útfærslu Skráms á 13 dögum jóla (Skrámur skrifar jólasveininum). Vinsælasta lag plötunnar varð hins vegar Nei nei, ekki um jólin sem Sigríður söng með þeim félögum, svo virðist sem ágreiningur hennar hafi ekki verið dýpri en svo að samstarf þeirra hélt áfram. Þau Björgvin áttu eftir að syngja saman aftur síðar undir merkjum Sléttuúlfanna.

Þetta haust var nóg að gera því samhliða því að jólaplatan var tekin upp fór sveitin til Lundúna og var hluti af Íslandskynningu mikilli, og tók m.a. lagið í Hyppodrome diskótekinu þar í borg. Ennfremur kom sveitin fram í kvikmyndinni Gullsandi eftir Ágúst Guðmundsson, undir nafninu Sómamenn. Tvö lög komu út á safnplötum með sveitinni undir því nafni, Mundu mig, ég man þig á safnplötunni Á rás og Stanslaust fjör á samnefndri safnplötu.

Jólaplatan Jól í góðu lagi fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV. Björgvin Halldórsson hafði enn annast upptökustjórn á plötunni en upptökur fóru fram í Hljóðrita eins og hinar fyrri. Gunnar Smári Helgason var upptökumaður og annaðist ennfremur hljóðblöndun ásamt Björgvini.
Enn fór hópurinn í pásu og nokkur ár liðu þar til næsta plata leit dagsins ljós en það var haustið 1989. Hún hét Heima er best og var enn í þeim sjötta áratuga anda sem hafði einkennt tónlist HLH. Og engu var breytt í upptökuferlinu, þar voru þeir Björgvin og Gunnar Smári enn fremstir í flokki en upptökur fóru fram síðla sumars.Eins og fyrri plötur flokksins seldist hún vel og fékk þokkalega dóm í DV. Tvö laganna nutu nokkurra vinsælda, Í útvarpinu heyrði ég lag (Twinkle little star) og Er það satt sem þeir segja um landann?

Þrátt fyrir vinsældir og töluverða velgengni varð Heima er best þó síðasta stúdíóplata HLH-flokksins þó að hann hafi komið öðru hvoru saman við hátíðleg tækifæri síðan. Þannig hefur hann reyndar alltaf starfað og því er óvíst hvort hann er hættur störfum.

1997 kom út safnplata með 20 vinsælustu lögum HLH-flokksins en hún bar heitið Í útvarpinu heyrði ég lag. Ennfremur hafa fjölmörg lög með HLH flokknum ratað á jóla- og safnplötur í gegnum tíðina eins og Svalasmellir, Á hátíðarvegum, Á slaginu, Fyrstu árin 1 og 2, Í sumarsveiflu, Jólagleði, Með lögum skal land byggja, Óskalögin 5 og 6, Rokk og jól, Pottþétt ´70‘s, Pottþétt ´80‘s, Pottþétt barnajól og Pottþétt partý, svo nokkur dæmi séu tekin.

Efni á plötum