Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar [2] (1980-)

Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar

Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar

Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar hefur starfað um árabil og er sjálfsagt ein lífseigasta virka hljómsveit landsins.

Sveitin á rætur sínar að rekja til Hafnar í Hornafirði og líklega allt aftur til 1980 eða fyrr. Sagan segir reyndar að Haukur hafi starfrækt aðra sveit undir eigin nafni á æskustöðvum sínum á Eskifirði ásamt Ellert Borgari Þorvaldssyni og fleirum um eða eftir 1960 en það er önnur sveit.

Einhverjar mannabreytingar hafa átt sér stað í hljómsveitinni en frá 1985 hefur sami kjarninn að mestu skipað sveitina, en þeir eru Haukur Helgi Þorvaldsson söngvari og hljómborðsleikari, Jóhann Morávek bassaleikari, Gunnlaugur Sigurðsson gítarleikari, Bragi Karlsson trommuleikari og Bjartur Logi Finnsson söngvari en þeir tveir síðast töldu hafa haft stystan viðverutíma í henni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra meðlimi hljómsveitarinnar.

Sveitin er ennþá nokkuð virk og spilar nokkrum sinnum á ári, það eru helst uppákomur á borð við þorrablót og þess háttar samkomur en einnig á almennum dansleikjum, heimaslóðirnar Sindrabær og Hótel Höfn teljast aðalvígi hljómsveitarinnar. Fróðir menn á suðaustanverðu landinu segja að ekki sé haldið almennilegt ball á svæðinu öðruvísi en að Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar komi þar við sögu.

Þess má geta að sveitin kom við sögu á plötu Karlakórsins Jökuls, Í jöklanna skjóli, sem út kom 1999.