Hurðaskellir og Stúfur (um 1980-90)

Hurðaskellir og Stúfur

Þeir félagar og skemmtikraftar Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson gerðu út á jólasveinabransann um tíma og kölluðu sig Hurðaskelli og Stúf, og svo fór að tvær plötur með þeim kumpánum litu dagsins ljós. Þeir jólasveinar höfðu reyndar komið við sögu á jólaplötunni Við jólatréð (1981) en þarna báru þeir uppi heilar plötur sjálfir.

Tildrögin munu hafa verið þau að Ómar Ragnarsson var að hætta að koma fram sem Gáttaþefur og stakk upp á því við þá félaga að fylla í skarðið. Fyrst má nefna plötuna Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki sem kom út 1982 en þar komu ýmsir gestir við sögu, m.a. Bryndís Schram og Þórhallur Sigurðsson (Laddi) í gervi Þórðar húsvarðar en þau tvö önnuðust Stundina okkar í Ríkissjónvarpinu um það leyti. Á plötunni var að finna auk venjulegra jólalaga, nokkur ný eins og Út með köttinn sem naut nokkurra vinsælda meðal æsku landsins.

Reyndar voru ekki alltaf jólin hjá þeim félögum í þessum bransa þar sem Magnús var handtekinn fyrir jólin 1981 þegar þeir voru að reyna að komast inn í Alþingishúsið til að færa þingmönnum jólaglaðning, Þorgeir var hins vegar fljótur að láta sig hverfa í það skiptið. Þar er komin skýringin á titli plötunnar, Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki. Á plötunni er aukinheldur að finna lagið Handtaka jólasveinanna og þarf enginn að velkjast í vafa um hvaðan sú hugmynd kom.

Platan seldist nógu vel til að þeir Magnús og Þorgeir brugðu sér aftur í gallann nokkrum árum síðar og gáfu út plötuna Hurðaskellir og Stúfur snúa aftur (1989), uppskriftin var nokkurn veginn sú sama, jólalög úr ýmsum áttum í bland við glens og grín þeirra fóstbræðra. Á þessari plötu lék Bítlavinafélagið undir og gestagangur var mikill sem fyrr.

Æ síðan hafa þeir félagar komið fram í gervi bræðranna þótt ekki hafi plata litið dagsins ljós. Þeir hafa þó ratað á hinar ýmsustu jólasafnplötur í gegnum tíðina og má þar nefna plöturnar Á hátíðarvegum, Barnagælur: Jólasveinar einn og átta, Barnagælur: Litlu jólin, Jólagleði (1983), Jólagleði (2000), Pottþétt barnajól og 100 íslensk jólalög. Þar er þó eingöngu um að ræða efni sem áður hafði komið út.

Efni á plötum