Yrja (1993-94)

Yrja1

Yrja

Hljómsveitin Yrja (1993-94) var að mestu skipuð Hafnfirðingum en var stofnuð í kjölfar þess að tvær söngkonur úr Menntaskólanum í Reykjavík, þær Margrét Sigurðardóttir (sem sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 1992) og Kristbjörg Kari Sólmundardóttir, unnu að árshátíðarlagi fyrir skólann sinn. Til liðs við sig fengu þær Hafnfirðingana í hljómsveitinni Not correct í verkefnið sem vatt upp á sig, og hafði sveitin ærið að gera sumarið 1993 og veturinn á eftir.

Meðlimir Yrju utan söngkvennanna tveggja voru þeir Eysteinn Eysteinsson trommuleikari, Stefán Örn Gunnlaugsson hljómborðsleikari, Ingimundur Óskarsson bassaleikari og Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari, en allir hafa þeir orðið þekktir í tónlistarbransanum síðar, bæði í hljómsveitum og sem sólóistar.

Yrja spilaði eins konar þjóðlagatónlist sem vakti þegar eftirtekt og veittu fjölmiðlar þeim strax athygli, virtist sem svo að þarna væri á ferðinni afar efnilegt band sem líklegt yrði til stórræðanna næstu árin. Sveitin átti ennfremur lag á safnplötunni Heyrðu 2 og því virtist sem framtíðin blasti við henni.

Af einhverri ástæðu fjaraði smám saman undan sveitinni næsta vor (1994) og síðan hefur ekki heyrst til hennar, sveitarmeðlimir hafa hins vegar haslað sér völl á öðrum tónlistarvettvangi eins og fyrr segir.