Nýdönsk og diskóskrefið

Nýdönsk – Diskó Berlín
Skýmir SK141, 2014
3,5 stjarna

Nýdönsk - Diskó BerlínHljómsveitin Nýdönsk hefur verið starfandi allt frá árinu 1987 þegar hún var stofnuð af nokkrum félögum í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem hefur alið af sér margt tónlistarfólkið – og annað listafólk.

Sveitin gekk í gegnum ýmsar mannabreytingar einkum framan af en hefur hin síðari verið skipuð þeim stofendum Daníel Ágústi Haraldssyni, Birni Jörundi Friðbjörnssyni og Ólafi Hólm, og Stefáni Hjörleifssyni og Jóni Ólafssyni sem gengu til liðs við sveitina í upphafi árs 1991. Reyndar hefur Daníel Ágúst hætt og byrjað aftur og hætt aftur og byrjað aftur síðan þá. Plöturnar eru nú orðnar sautján talsins og þá er allt talið með, safnplötur og tónleikar, og allir þekkja slagara eins og Fram á nótt, Hjálpaðu mér upp, Alelda, Frelsið, Á sama tíma að ári og Horfðu til himins og þannig væri hægt að telja áfram.

Nýjasta afurðin, Diskó Berlín kom út á liðnu hausti en áður hafði sveitin verið dugleg að dæla út smáskífum í útvarpsspilun svo hlustendur og aðdáendur höfðu fengið forsmekkinn af plötunni. Það verður þó að segjast að titillinn segir svosem ekki allt um innihald plötunnar, diskóið er enginn rauður þráður á henni þó því bregði vissulega fyrir en það er í raun aðeins í þremur lögum sem undirritaður greinir einhver diskóáhrif og þá í mismiklu magni. Þau koma sterkust fram í einu besta lagi plötunnar, Nýr maður sem hefur þó enga diskótengingu fyrr en í viðlaginu þegar Daníel Ágúst töfrar fram seiðandi röddu sem ítrekar að það sé gott að dansa, Barry White kemur manni fyrir hugskotssjónir og ljósin dempast. Annað dæmi er í fremur slöku titillaginu þar sem diskókennt (við)lagið er ekkert sérlega sterkt en vinnur á í lokin þegar hinn nýdanski húmor heyrist í bakröddunum. Þriðja diskótengingin er í líklega fyrsta instrumental lagi sveitarinnar frá upphafi, Túristan sem reyndar hefði alveg mátt missa sín, slakasta lag plötunnar að mínu mati.

En að öðrum lögum, Uppvakningar hefur mikið verið í spilun og er eitt af bestu lögum plötunnar og þar fá menn tvö fyrir eitt ef svo má segja því að í miðju laginu skiptir það alveg um stíl svo úr verður algjörlega nýtt lag þar sem kallast á Íðilfögur IKEA-rödd Jóns Ólafssonar og rám uppvakningsrödd Björns Jörundar. Snilldarlega vel gert.

Annað frábært lag er Stafrófsröð og þegar kemur í instrumental sóló/millikaflann nær lagið hámarki og því er ekki síst að þakka hinum allt að því Sigur rósar-legu áhrifum sem þar heyrast. Draumalín er ágætt lag líka en líður fyrir að vera slitið í sundur trekk í trekk með intrói/millikafla sem passar illa við fallega ballöðuna. Það er helst hægt að líkja þessu við að sveitaballaband taki hringdans á þorrablóti, fyrst „Kokkinn“, skipti svo yfir hægan vals, aftur í „Kokkinn“ og aftur í hægan vals. Synd þar sem lagið er fallega samið.

Dagdraumaregn er eiginlega dæmigerðasta Nýdanskarlagið á plötunni ásamt Mánagyðju, án þess þó að geta talist með bestu lögum sveitarinnar, og Andlitsbókhaldið er enn óáhugaverðara svo heilt yfir telst Diskó Berlín vart vera nema í meðallagi góð meðal Nýdanskra platna, en þó kannski rúmlega það.

Umslag plötunnar er bleikt og ef til vill svolítið í anda „þemans“, vel unnið nema að þar vantar upplýsingar sem hafa vægi, hlutur sem því miður allt of margir umslagahönnuðir eru hættir að taka tillit til.

Á heildina litið má segja að tónlistin sé léttari en á fyrri plötum, gítarar minna áberandi og hljómborð og synthar meira í forgrunni en áður, sem sýnir að sveitin stendur ekki í stað, staðnar ekki en er í einhvers konar þróun – skrefið í átt að diskóinu er ekki slæm hugmynd og spurningin er hvort hefði átt að fara alla leið í pælingunni en þó er ekki víst að það hefði heldur gengið almennilega upp þannig að niðurstaðan er má segja pínulítil vonbrigði eftir forsmekkinn af plötunni sem fyrr er greint frá. Góðu fréttirnar eru hins vegar að þessi ein af uppáhaldssveitum mínum virðist ekki dauð úr öllum æðum og því engin ástæða til að gefa út dánarvottorð á hana eins og maður stóð í meiningu um fyrir nokkrum árum.