Óttarlegur samtíningur

Gunnlaugur Briem – Liberté
Gramy records GR114, 2014

tvær stjörnur

 

Gunnlaugur Briem - Liberté

Gunnlaugur Briem er líklega þekktasti trommuleikari landsins, hann hefur leikið með Mezzoforte nánast síðan hann var krakki og einnig með sveitum eins og Model, GCD, Mannakornum, Ríó tríói, Sléttuúlfunum og Ljósunum í bænum, aukinheldur hefur hann leikið á plötum nánast allra tónlistarmanna á Íslandi sem eitthvað kveður að. Gunnlaugur hefur líklega oftast allra verið kjörinn trommuleikari ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum, gefið út sólóplötur og þannig mætti áfram lengi telja.

Liberté er þriðja sólóplata Gunnlaugs en hann hefur ýmist gefið plötur sínar út undir eigin nafni eða listamannsnafninu Earth affair. Fjöldi manna kemur að gerð Liberté þannig að ekki er það svo að trymbillinn leiki á öll hljóðfæri sjálfur, hins vegar leikur hann á píanó og flygil og syngur sjálfur í nokkrum laganna og er það að öllum líkindum í fyrsta skipti sem rödd hans heyrist á plötu. Gunnlaugur kemst þokkalega frá söngnum þótt ekki sé hann neinn stórsöngvari, en fyrir vikið hefur platan meira persónulegt vægi en ef aðrir sæju um sönginn. Og það er klárlega einn af plúsum hennar

Titill plötunnar Liberté, hefur farið misjafnlega fyrir brjóstið á fólki og í úttekt Fréttablaðsins á íslenskum plötutitlum síðasta árs var þessi kjörinn sá versti. Ég verð að vera sammála, í sjálfu sér er merkingin ekki endilega það versta og hefði alveg sloppið á íslensku eða ensku en því miður verður hann aðeins tilgerðarlegur upp á frönsku.

Liberté byrjar sannarlega vel og í upphafslaginu Mother koma bara Bítlarnir til greina sem áhrifavaldar, upp koma í huga hljóðheimur og laglínur Tomorrow never knows og Within you without you, lagið opnast í löngu intrói og rís smám saman þar til það springur út með látum, með barnakór og alles. Þarna er strax komið besta lag plötunnar en önnur tvö má nefna, þriðja lagið, The Fugue og það fimmta, She gave me water, stórgóð instrumental lög bæði tvö en því miður er lína síðarnefnda lagsins keyrð á panflautusynthasándi sem hefði alveg mátt missa sín. Önnur lög falla því miður undir meðalmennsku og uppfyllingu að mínu mati, ólíkar lagasmíðar og fyrst og fremst ólíkur hljóðheimur laganna þar sem kallast á forrituð hljómborðssánd  og „alvöru“ strengja- og blásturshljóðfæri, jafnvel steinaharpa, bundið jú saman með óaðfinnanlegum áslætti og slagverki – oftast.

Og það þannig horfir Liberté fyrir mér, kraðak ólíkra ólíkra lagasmíða og enn fjölbreytilegra hljóðfæra og þar er galli plötunnar í hnotskurn. Hún hljómar dálítið eins og saman sett safnplata eða ferilsplata með ósungnum og sungnum lögum, einu meira að segja sungnu á íslensku, sundurlaus án allrar heildarmyndar. Allt frá því að vera eðaltónlist niður í að teljast uppfyllingarefni, semsagt svolítið eins og segir í auglýsingunni þar sem húsmóðirin afsakar matinn sem hún ber á borðið fyrir tengdasoninn verðandi, tautandi „óttarlegur samtíningur!“.