Öpp jors (1986-94)

Öpp jors1

Öpp jors

Tvíeykið Öpp jors starfaði og gaf út þrjár snældur á sínum tíma og marka upphaf ferils Barða Jóhannssonar, síðar kenndan við Bang Gang og Lady & bird.

Öpp jors var stofnuð 1986 af þeim Barða Jóhannssyni og Lárusi Magnússyni en þeir voru þá á barnsaldri, reyndar eru heimildir eitthvað misvísandi um hvenær sveitin var stofnuð. Sumar segja að hún hafi verið stofnuð þegar Barði var fimmtán ára (1990) en aðrar segja 1986, sem gengur miklu fremur upp þar sem elstu upptökurnar á síðustu snældu þeirra voru frá 1987. Heimildir segja einnig að meðlimir Öpp jors hafi verið fjórir í upphafi en hvergi finnast upplýsingar um hverjir hinir tveir voru.

Þar sem þeir Öpp jors liðar voru ungir að árum var tónleikahald í lágmarki framan af og því héldu þeir ekki opinbera tónleika fyrr en 1989 og var uppistaðan í tónleikaprógrammi þeirra alltaf frumsamið efni, dauðadiskó eins og þeir skilgreindu tónlistina sjálfir í blaðaviðtali en sú skilgreining skírskotaði til þess að tónlistin var eins konar diskó en söngurinn fremur í ætt við dauðarokk.

Sveitin gaf út þrjár snældur á ferli sínum. Sú fyrsta kom út 1990 og bar titilinn Mongólían Bóbó, það sama ár kom út efni með henni á safnsnældunni Strump þannig að snældan var alla tíð vettvangur sveitarinnar.

Ári síðar kom út önnur snælda, Plan-B dauði og tveimur árum eftir það (1993) birtist þriðja snældan, Gørn (breskur skemmtistaður), sem hafði að geyma misgamlar upptökur allt frá 1987 og læv-upptökur auk annars efnis. Þriðja snældan var því eins konar safnsnælda en var um leið svanasöngur Öpp jors. Í blaðaviðtali útskýrðu þeir hvers vegna undirtitillinn (breskur skemmtistaður) kom til en það var til að koma í veg fyrir misskilning þar sem fyrir komu lagatitillinn Børn í gørn og textabrotin „I‘m gonna take you in the gørn” og “ég tek børn í gørn“. 1993 kom líka út safnsnældan Snarl III sem hafði að geyma efni með sveitinni.

Aldrei birtist gagnrýni um útgáfur dúósins í fjölmiðlum og því er erfitt að segja um hvers konar viðtökur þær fengu, upplögin voru ennfremur mjög lítil, gefnar út á eigin útgáfumerki (Öpp jors records) og seldust upp svo snældurnar þrjár teljast klárlega sjaldgæfar.

1994 var Barði farinn að vinna í öðrum verkefnum með hljósmveitinni Wool og úr því varð sveitin Marsipan sem reyndar varð skammlíf, í framhaldinu varð Bang Gang til. Lárus kom nokkuð við sögu tónlistarlífs í Menntaskólanum í Reykjavík (reyndar eins og Barði) en varð eftir það lítið áberandi í íslensku tónlistarlífi, honum hefur þó reglulega skotið upp á yfirborðið í ýmsum verkefnum.

Efni á plötum