Kan (1981-89)

Kan

Kan 1982

Hljómsveitin Kan starfaði í Bolungarvík framan af og var helsti fulltrúi Vestfjarða á popptónlistarsviðinu á níunda áratugnum.

Kan var stofnuð vorið 1981 í Bolungarvík og voru meðlimir sveitarinnar í upphafi þau Finnbogi Kristinsson bassaleikari, Hrólfur Vagnsson harmonikku- og hljómborðsleikari, Pálína Vagnsdóttir söngkona, Magnús Hávarðarson gítarleikari og Haukur Vagnsson trymbill en hann var langyngstur, aðeins fjórtán ára gamall. Haukur stofnaði sveitina ásamt Finnboga en þau Haukur, Hrólfur og Pálína eru systkini sem öll hafa verið áberandi í tónlist.

Kan varð fljótlega öflug á ballsviðinu og lék víða en aðallega þó framan af á Vestfjörðum, um haustið 1981 hættu Hrólfur og Pálína og fóru til námsstarfa en þau höfðu aðeins komið vestur yfir sumartímann, og í þeirra stað komu þeir Kristinn Elíasson hljómborðsleikari og Herbert Guðmundsson söngvari sem flutti vestur af því tilefni en hann hafði áður starfað með þekktum sveitum á höfuðborgarsvæðinu s.s. Pelican og Eik. Herbert fékk starf hjá Einari Guðfinnssyni og var þar sem „stálari“ í frystihúsinu, hans hlutverk var þó meira að kynda undir stemmingu fyrir böllin og kynna hljómsveitina, þegar hann var búinn að stála kom „alvöru stálari“ og brýndi hnífana fyrir úrskurðardömurnar – segir sagan.

Haustið 1983 hættu Haukur trommuleikari (sem fór suður í nám) og Kristinn hljómborðsleikari og var auglýst eftir nýjum slíkum, Hilmar Valgarðsson trymbill og Alfreð Erlingsson hljómborðsleikari komu í þeirra stað og sveitin fluttist smám saman suður til Reykjavíkur enda var þá Magnús eini Bolvíkingurinn eftir í sveitinni.

Sumarið 1984 fóru meðlimir Kans í hljóðver, hljóðverið Grettisgat og tóku upp undir handleiðslu Tómasar M. Tómassonar átta laga plötuna Í ræktinni, sem kom út um haustið. Plötuna gáfu þeir út sjálfir og hlaut hún ágætar viðtökur í fjölmiðlum, gagnrýnendur NT og DV gáfu henni ágæta dóma og Þjóðviljinn og tímaritið Samúel gáfu henni þokkalega krítík einnig. Nokkur lög af plötunni heyrðust spiluð í útvarpi og að minnsta kosti tvö þeirra, titillagið Ertu í ræktinni? og Megi sá draumur rætast, nutu nokkurra vinsælda.

Góðar viðtökur plötunnar og vinsældir, urðu Herbert hvatning til að vinna sólóefni en eins og margir vita sendi hann ári síðar frá sér plötuna Dawn to the revolution þar sem stórsmellinn Can‘t walk away var að finna.

Kan 1984

Kan 1984

Kan starfaði þó áfram (e.t.v. með hléum) að minnsta kosti til ársins 1989 en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana eftir útgáfu plötunnar. Þegar lag með sveitinni kom út á safnplötu það ár með vestfirskum flytjendum (Vestan vindar) voru Herbert, Magnús og Finnbogi í sveitinni en auk þeirra léku á plötunni Sigurður Jónsson hljómborðsleikari, Jónas Björnsson trommu- og trompetleikari og Pálmi Einarsson básúnuleikari. Ekki liggur fyrir hvort þeir þrír síðast töldu voru meðlimir Kans.

Kan starfrækti á þeim tíma stúdíóið Bjartsýni á höfuðborgarsvæðinu en sveitin hafði einmitt gefið plötuna út undir því útgáfumerki. Fjölmargar plötur voru teknar upp í því hljóðveri.

Kan kom saman á nýjan leik um páskana 2006 þegar sveitin birtist á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, á Ísafirði.

Efni á plötum