Karlakór verkamanna [2] (1932-40)

Karlakór verkamanna [2]

Karlakór verkamanna í Reykjavík

Karlakór verkamanna í Reykjavík var líkast til mest áberandi þess konar karlakóra sem störfuðu einkum á fjórða áratug síðustu aldar.

Kórinn var stofnaður í mars 1932 og starfaði fyrsta árið undir stjórn Benedikts Elfar en að því loknu tók Hallgrímur Jakobsson við keflinu. Hann stjórnaði kórnum allt til loka en kórinn starfaði til 1940.

Karlakór verkamanna söng einkum á hátíðum og skemmtunum tengdum verkalýðsbaráttunni en hélt einnig sjálfstæða tónleika þess utan. Kórinn kom fyrst fram á degi verkalýðsins, 1. maí 1932.

Kórinn var í fyrstu afar fámennur, nítján söngmenn skipuðu hann í upphafi en lengstum voru meðlimir hans um þrjátíu talsins. Hann glímdi með margs konar fjárhagsleg vandamál og voru margir meðlimir hans án atvinnu um lengri og skemmri tíma en aukinheldur var kórinn á hrakhólum hvað húsnæði varðar. Starf hans var því fyrst og fremst hugsjónastarf.

1933 var Karlakór verkamanna fyrstur til að syngja verkalýðstengd lög á plötu á Íslandi þegar tveggja laga 78 snúninga plata kom út með kórnum á vegum Fálkans en upptökumenn frá Columbia fyrirtækinu voru þá hérlendis og tóku upp mikið efni.

Þremur árum síðar gaf kórinn út söngkverið Vakna þú Ísland en það hafði að geyma texta við alþýðusönglög.

Efni á plötum