Jeremías (1970-72)

Jeremías

Jeremías

Hljómsveitin Jeremías starfaði á þriggja ára tímabili 1970-72.

Jeremías mun hafa verið stofnuð í Réttarholtsskóla snemma á árinu 1970 og í upphafi virðast hafa verið í hljómsveitinni þeir Ólafur Jónsson hljómborðsleikari, Sindri Sindrason gítarleikari, Björgvin Björgvinsson trommuleikari og söngvari, Páll Guðbergsson bassaleikari og Guðjón Guðmundsson söngvari, sá síðast nefndi er gjarnan kallaður Gaupi og hefur starfað sem íþróttafréttamaður síðastliðnu áratugi.

Einhverjar mannabreytingar urðu í Jeremías og eru þær hér að mestu ágiskaðar, Páll bassaleikari hætti í sveitinni og færði Sindri sig þá yfir á bassann en Skúli J. Björnsson tók við gítarnum af Sindra. Már Elíson mun ennfremur hafa tekið við trommunum af Björgvini. Þorsteinn Þorsteinsson varð síðan söngvari sveitarinnar í stað Guðjóns.

Jeremías starfaði til hausts 1972 og reis ferill sveitarinnar hæst væntanlega þegar hún lék á Saltvíkur-hátíðinni sumarið 1971. Ekki liggja fyrir upplýsingar um frekari mannabreytingar í Jeremías.