Aldarfjórðungi of seint á ferð

Geirmundur Valtýsson – Skagfirðingar syngja
Zonet CD 050, 2015
1 stjarna

Geirmundur Valtýsson - Skagfirðingar syngjaGeirmund Valtýsson þarf varla að kynna, hann hafði verið í og starfrækt hljómsveitir í Skagafirðinum um árabil, Rómó og Geiri, Geislar, Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og Flamengo komu til sögunnar áður en fyrsta smáskífan leit dagsins ljós 1972 með laginu Bíddu við en þá hafði hann stofnað sveit undir eigin nafni. Í kjölfarið fylgdi smellurinn Nú er ég léttur og lengi var Geirmundur þekktastur fyrir þau lög en var ekki áberandi að öðru leyti í íslensku tónlistarlífi fyrr en síðar. Síðari hluti níunda áratugarins og fyrri hluti þess tíunda var aftur hans tími þegar hann átti hvern smellinn á fætur öðrum, sumir þeirra voru tengdir Eurovision vakningunni í kjölfar þátttöku Íslands 1986 þegar „skagfirska sveiflan“ var beinlínis eignum honum.

Síðan þá hefur Geirmundur gefið reglulega út plötur og eru nú á annan tug en smám saman hefur fjarað undan almennum vinsældum kappans enda verður ferli hans ekki lýst með öðrum hætti en einu orði – stöðnun.

Hópurinn sem fylgdi Geirmundi á sínum tíma hefur elst með tímanum og þynnst um leið en hann hefur þó átt sér fast fylgisfólk sem er tilbúið að elta hljómsveit hans á hestamannaböll víða um land. Sem er auðvitað vel.

En því miður er ekkert nýtt að finna á nýrri plötu sem Geirmundur sendi frá sér fyrir nokkru, plötu sem ber titilinn Skagfirðingar syngja en á henni fær hann söngfólk úr hópi heimamanna á Sauðárkróki og í Skagafirðinum til að syngja lög sín, textarnir koma hins vegar úr ýmsum áttum þótt mér virðist þeir flestir koma út heimabyggð.

Uppistaðan á plötunni er þriggja hljóma gamaldags skagfirskt Geirmundarpopp sem stenst illa tímans tönn, svolítið eins og að horfa á gamla unglingamynd frá níunda áratugnum og þannig er Geirmundur ennþá að semja þau tvö lög sem hann varð hvað þekktastur fyrir á blómaskeiðinu, annars vegar Lífsdansinn í anda hinnar skagfirsku sveiflu, hins vegar Ort í sandinn. Stundum er hægt að róa á sömu mið í tónlistinni og sígilt rokk og ról er auðvitað dæmi um slíkt, svo er hins vegar ekki í hans tónlist og aldarfjórðungur er liðinn síðan svo var. Það er stærsti galli plötunnar.

Flest eru lögin eins og maður hafi heyrt þau á níunda og tíunda áratugnum, þau eldast afar illa en tvö síðustu lögin (Skagafjörður og Drangey sem augljóslega eru bæði óður til heimabyggðarinnar) skara hins vegar nokkuð fram í gæðum en þau eru sett í einsöngsútgáfur sem vel að merkja virðast geta gengið alltaf og standast fullkomlega öll tímapróf. Síðasta lag fyrir fréttir er jafn sígilt í dag og það var fyrir tuttugu eða fjörutíu árum. Spurningin er hvort Geirmundur ætti ekki e.t.v. að staldra fremur við í einsöngslagasmíðum en á fornum sveifluslóðum.

Textarnir á plötunni eru nánast eins misjafnir og þeir eru margir, sumir komast nokkuð vel frá sínu og með bragfræðina að vopni ná höfundar þeirra að smíða þokkalega dægurlagatexta en svo eru aðrir hroðvirknislega og allt að því vandræðalega ortir.

Litlu er yfir að kvarta í flutningnum á plötunni, hljóðfæraleikur er í höndum landsliðsmanna í tónlistargeiranum sem leysa sitt eins og vera ber undir dyggri stjórn Vilhjálms Guðjónssonar en hann hefði betur klætt lögin í nútímalegri búning, söngvararnir komast flestir þokkalega frá sínu en eru auðvitað misjafnir, þeirra á meðal má nefna Álftagerðisbræður og Sigvalda Helga Gunnarsson sem kom við sögu í The Voice þáttunum fyrir fáeinum mánuðum. Það skal því enginn efast um að nóg er til að hæfileikaríku söngfólki í Skagafirðinum.

Umslag plötunnar er vandræðalega ljótt en innihald bæklingsins er nokkuð efnismikið, textar og upplýsingar um söngvara og hljóðfæraleikara við hvert lag. Hitt er að prófarkarlestri er vægast sagt ábótavant og þar hefur heldur betur verið kastað til hendinni, svo slæmt er það að eitt laganna heitir Úlla la la la aftan á umslagi en í textablaði heitir það Úlala, aukinheldur er tónlistarmaðurinn Þórir Úlfarsson sagður vera Úlvarsson og enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð er þegar gítarar er sagður leika á gítar í einu laganna. Villurnar skipta tugum.

Auðvitað á þessi plata fullkomlega rétt á sér og ég er þess handviss að hún selst vel meðal aðdáenda Geirmundar og í Skagafirðinum, ég er hins vegar á þeirri skoðun að hún eigi varla erindi til annarra og sérstaklega vegna þess að hún kemur einfaldlega tuttugu og fimm árum of seint út. Hér er spólað í tyggjói.